Enn um Rannsóknarnefnd Sjóslysa

Undirritaður vill með þessum skrifum vekja athygli á opnu bréfi Gunnlaugs Árnasonar í síðasta tölublaði Stykkishólms-Póstsins frá 28. febrúar s.l. og taka undir orð hans. Vissulega má álíta að „of seint sé í rassinn gripið“ þó svo að ég vilji trúa að enn sé hægt að vinda ofan af þessari vitleysu, t.d. með því að fresta gildistöku nýsamþykktra laga.

Undirritaður vill með þessum skrifum vekja athygli á opnu bréfi Gunnlaugs Árnasonar í síðasta tölublaði Stykkishólms-Póstsins frá 28. febrúar s.l. og taka undir orð hans. Vissulega má álíta að „of seint sé í rassinn gripið“ þó svo að ég vilji trúa að enn sé hægt að vinda ofan af þessari vitleysu, t.d. með því að fresta gildistöku nýsamþykktra laga.

Hugmyndir um að sameina nefndir sem hafa með höndum rannsóknir slysa er ekki ný af nálinni. Hún kom fyrst fram í ráðherratíð Kristjáns Möllers og var tilefnið sagt vera sparnaður í ríkisreksrtinum. Sem sagt í þágu hagræðingar. Strax þá gekk mjög illa að fá fram haldbær rök fyrir þessari hugmynd, heldur einungis þetta sama viðkvæði, í þágu hagræðingar.

Tilurð þess að rannsóknarnefnd sjóslysa (Rns.is) var flutt hingað voru nýsamþykkt lög nr. 68 frá 20. maí árið 2000. Nefndin hafði starfað um langa hríð, en því miður notið sáralítils trausts þeirra sem þar komu helst að svo sem sjómanna og útvegsmanna. Það má nærri segja að það hafi verið martröð hvers sjómanns að þurfa að koma fyrir sjórétt þar sem þáverandi forsvarsmaður nefndarinnar var mættur. Slíkar fyrirtökur líktust frekar rannsóknarréttum til forna en því að grafast fyrir um ástæður slysa eins og hugmyndin var í upphafi. Mál voru því komin í það horf, að nefndin sem slík var rúin öllu trausti og samvinna hennar og hagsmunaaðila í algjöru lágmarki.

Sturla Böðvarsson, þáverandi samgönguráðherra lagði því fram frumvarp að nýjum lögum fyrir nefndina, sem samþykkt voru eins og fyrr segir og ákveðið var að endurnýja forstöðu nefndarinnar og flytja hana til Stykkishólms. Núverandi forstöðumaður Jón Arelíus Ingólfsson sem tók við starfinu um þetta leiti sá um að flytja starfstöðina til Stykkishólms og hófst handa við að byggja upp starfið og nútímavæða starfshætti. Guðmundur Lárusson var ráðinn eftir að nefndin flutti hingað og þeir með bakstuðningi sjálfrar nefndarinnar hafa lyft grettistaki við að hefja starfið til vegs og virðingar og í dag er samstarfið við sjómenn og aðra hagsmunaaðila eins og best er á kosið.

En nú er hugmyndin að splundra þessu að nýju í „þágu hagræðingar“. Faglega starfið er látið lönd og leið og ákveðið að hafa allt aðra skipan á rannsóknarstarfinu án þess að taka neitt tillit til aðvaranna álitaaðila. Auk þess hefur verið reiknað út af fjársýslu Alþingis að kostnaður við heildarstarfsemi sameinaðara nefnda muni verða 6 milljónum kr. hærra á ári en nú er. Hver er þá tilgangurinn? Undirrituðum segir svo hugur um að þarna sé á ferðinni eitthvert sérstakt áhugamál embættismanna í ráðuneytinu sem hafa haft þann starfa undanfarið að sameina sem allra mest, því það sé svo hagstætt fyrir ríkið. Engu máli skipti þó sýnt hafi verið fram á að margar sameiningar í opinbera kerfinu skili minna en engu. Bara að fara eftir boðorðinu „sameina“.

Undirritaður tekur undir allt sem Gunnlaugur Árnason tiltekur um mikilvægi þess að halda störfunum á staðnum, en vill í þessari grein varpa aðeins meira ljósi á aðrar staðreyndir málsins. Það er eins og Gunnlaugur segir mjög alvarlegt að missa störf burtu, sérstaklega þegar á engan hátt er hægt að færa nein skynsamleg rök fyrir þeim breytingum. Ég tek undir áskorun Gunnlaugs til bæjaryfirvalda að sýna nú djörfung og hug.

Pétur Ágústsson.