Miðvikudagur , 19. desember 2018

Er safn fyrirtæki?

Söfn hafa verið þó nokkuð í umræðunni undanfarið og er það vel því umfjöllunin hefur dregið fram mikilvæg atriði varðandi rekstur safna og viðhorf til þeirra sem stofnanna. Árið hófst á því að ný safnalög tóku gildi (lög nr. 141) en breytingar þeirra eru helst þær að talað er um viðurkennd söfn og reynt að skilgreina betur faglegan ramma safna.

Söfn hafa verið þó nokkuð í umræðunni undanfarið og er það vel því umfjöllunin hefur dregið fram mikilvæg atriði varðandi rekstur safna og viðhorf til þeirra sem stofnanna. Árið hófst á því að ný safnalög tóku gildi (lög nr. 141) en breytingar þeirra eru helst þær að talað er um viðurkennd söfn og reynt að skilgreina betur faglegan ramma safna.
       Í umræðunni heyrðist fyrst frá Byggðasafni Skagfirðinga í Glaumbæ 5. jan. í Morgunblaðinu en safnstjórinn þar, Sigríður Sigurðardóttur, er mikill reynslubolti í safnamálum og benti á að byggðasöfn eru ekki ferðaþjónustufyrirtæki heldur mikilvæg fyrir varðveislu, rannsóknir og miðlun menningararfs byggðanna og þar liggi tækifæri til að efla þekkingu og nýsköpun sé rétt haldið á spöðunum. Sigríður benti á að sveitastjórnarmenn geti verið ótrúlega blindir á tækifærin sem í byggðasöfnum felast t.d. að fjölga atvinnumöguleikum háskólamenntaðs fólks á landsbyggðinni og efla ímynd íbúanna á svæðunum. Verkefnin eru næg segir Sigríður „því grunnstarfsemi safnanna, það er söfnun, skráning, rannsóknir, varðveisla og miðlun sé víða í molum því eigendurnir hafi gleymt til hvers þau voru sett á fót. Þeim [söfnunum] sé hent út í styrkjahark og lagt upp úr að þau séu sjálfbær ‚á beit‘ hjá ferðamönnum“.
       Hressandi að heyra þessa lýsingu því hún er ekki fjarri lagi, að mínu mati. Ferðamenn skilja eftir sig tekjur sem er jú það sem sóst er eftir en ekki má gleyma að söfn eru líka fyrir íbúa svæðanna, skólafólk, fjölskyldufólk og venjulegt fólk en til þess að „heimamenn“ nýti sér söfn þurfa þau að sjálfsögðu að bjóða upp á aðlaðandi dagskrá til að halda lífi í föstum sýningum og efla tímabundnar sýningar. Slík starfsemi kostar peninga en eflir um leið samfélagið til þátttöku. Söfn eru ekki fyrirtæki. Þau eru samfélagsstofnanir líkt og skólar og voru upphaflega sett á laggirnar sem menntastofnanir.
       En aftur að umræðunni. 14. jan. heyrðist af því í hádegisfréttum á RÚV að Seltjarnarnesbær sjái sér ekki fært að reka lækningaminjasafn en um fokhelda nýbyggingu er að ræða sem kostar um 400 milljónir að klára. Formaður FÍSOS (félag íslenskra safna og safnmanna) benti á að hér væri um mikið ábyrgðarleysi að ræða gagnvart menningararfinum. Nokkrum dögum síðar kom í ljós að meira lá að baki. Sagt var frá því í Fréttablaðinu að bæjaryfirvöld á Seltjarnarnesi hafi óskað eftir formlegum viðræðum við mennta- og menningarmálaráðuneytið um að hýsa Náttúruminjasafn Íslands í safnahúsinu sem var ætlað lækningaminjasafninu. Reykjavíkurborg hafði samþykkt að kaupa Perluna til að hýsa þar fyrirhugað Náttúruminjasafn og á fjárlögum ársins 2013 er einmitt gert ráð fyrir 400 milljónum til að setja upp fasta sýningu á náttúruminjum … í Perlunni eða á Seltjarnarnesi. Þarna er engu líkara en söfn séu fyrirtæki sem gangi kaupum og sölu en veruleiki þeirra er mun flóknari en svo því söfn, skv. siðareglum ICOM (alþjóðasamtök safna) og íslenskum safnalögum, eru ekki rekin í hagnaðarskyni heldur er hlutverk þeirra að starfa í þágu almennings. „Í starfi sínu skulu söfn hafa að leiðarljósi að auka lífsgæði manna með því að efla skilning á þróun og stöðu menningar, lista, náttúru eða vísinda“ segir í 3gr. safnalaga og hvet ég alla sveitastjórnarmenn á Snæfellsnesi til að kynna sér vel og vandlega þessi lög.
       Að lokum má geta þess að „drottning“ menningarminjasafna á Íslandi: Þjóðminjasafn Íslands heldur nú upp á 150 ára afmæli sitt með pomp og pragt m.a. með upplýsingariti sem dreift hefur verið á öll heimili landsins. Þar er safnastarf útskýrt á aðgengilegan hátt og ætti að gagnast öllum sem hafa með söfn að gera sem fyrirmynd að faglegu og fræðandi starfi. 

Alma Dís Kristinsdóttir er safnstjóri Norska hússins (180 ára!)

sem er jafnframt byggðasafn Snæfellinga og Hnappdæla 

og rekið sameiginlega af fimm sveitafélögum.