Fathead Pizza

Takk fyrir þetta Steinunn Alva.

Ég treysti á að þið hafið prófað Snickers hrákökuna hennar Steinunnar, því hún er einstaklega góð.

Þar sem ég er mjög dekruð heimafyrir þá þarf ég nánast aldrei að elda enda elda ég víst bragðlausan og óætan mat að sögn Arnþórs, en hvað veit hann. Þrátt fyrir hæfileikaleysið mitt í eldamennsku þá ætla ég samt að koma með prýðis fína uppskrift af uppáhalds Pizzunni minni, sem kemur sér ansi vel þar sem Skúrinn Pizza joint er lokað.

Fathead Pizza (Ketóvæn Pizza)

Botn

170gr rifinn ostur (mozzarella)

2 msk rjómaostur

85gr möndlumjöl

1 egg

Salt og annað krydd eftir smekk

Aðferð:

Hitið ofninn í 180 gráður.

Setjið ost og rjómaost í skál og inn í örbylgjuofn,  passið að stoppa reglulega til að hræra. Ég læt þetta malla í 30 sek, hræri og set aftur inn í örbylgjuofn í 30 sek. Setjið möndlumjöl og egg ásamt kryddi út í og hrærið með gaffli.

Hnoðið svo saman eins og hægt er. Þú ert á réttri leið ef þetta er blautt og klistrað.

Setjið þetta blauta og klístraða á bökunarpappír og aðra örk yfir, dreifið úr þessu blauta og klístraða annað hvort með höndum eða kökukefli.

Gott er að stinga botninn með gaffli til að það komi ekki loftbólur þegar hann er bakaður í ofninum. Þegar botninn er orðinn fallega gylltur er komið að því skemmtilega, raða uppáhalds álegginu sínu á hann.

Það fer alveg eftir því í hvaða stuði ég er hvort ég noti búðarkeypta pizza sósu, geri mína eigin eða nota bara hvítlauksolíu. Gerðu það sem vekur mesta gleði hjá þér.

Þegar botninn minn er í ofninum að verða fallega gylltur þá létt steiki ég risarækjur, salta þær og krydda að smekk og raða þeim svo á pizzuna ásamt tómötum, döðlum, hvítlauks rjómaost og að sjálfsögðu nóg af rifnum osti. Eftir að pizzan hefur fengið að bakast í ofninum er tilvalið að skreyta hana með klettasalati og hvítlaukssósu.

Ég vona að þessi unaður af pizzu muni gleðja ykkur eins mikið og hún gleður mig.

Ég ætla að skora á Danna Kaz (Daníel Ali Kazmi). Það er stórkostleg hugmynd að skora á Danna þar sem hann er þekktur fyrir að elska mat og kann ekki að segja nei.

Þóra Magga