Ferðamál og Söfn

Það fer ekki framhjá neinum að ferðamenn setja svip sinn á Stykkishólm í auknum mæli. Sú holskefla af ferðamönnum, sem hefur undanfarið gengið yfir Suðurland hefur farið framhjá okkur að nokkru leyti, til allrar hamingju, vilja sumir segja. Samt höfum öll orðið vör við aukinn ferðamannastraum, en okkur hefur skort mælikvarða til að dæma um vöxtinn í ferðamennsku í Hólminum. Auðvitað vita kaupmenn, gestgjafar og þeir sem reka veitingahús í Hólminum vel hvað syngur, en við höfum því miður ekki aðgang að þeirra tölfræði. Það er þó eitt sem lýgur ekki, en það er umferðin. Þá á ég við bílatalningu Vegagerðarinnar, en þeir hafa skráð umferð síðan árið 2000 í tæki sem er staðfest á Stykkishólmsvegi rétt hjá Skildi eða Arnarhóli (vegnúmer 58-01).
Mynd-1Línuritið sem fylgir eru niðurstöður þeirra mælinga, frá árinu 2000 til 2015. Hér eru sýndar þrjár línur: rauða línan sýnir meðal fjölda bíla á dag yfir sumarmánuðina, sú bláa sýnir meðaltal bíla á dag yfir árið, og græna línan sýnir meðal fjölda bíla yfir veturinn.
Það má lesa margt út úr þessu línuriti, en eitt er augljóst: umferðin inn í Stykkishólm hefur rúmlega tvöfaldast á þessu tímabili, á öllum árstímum. Það eru hæðir og lægðir á línunum, sem kunna að vera tengdar kreppunni uppúr 2008, en það er mest sláandi hvað vöxturinn er mikill árin 2014 og 2015. Það virðist ekkert lát vera á þessum vexti í umferð í dag, eins og seinni myndin sýnir. Hún er súlurit frá Vegagerðinni fyrir meðaltal hvers mánaðar árin 2014 til 2016, sem sagt: alveg nýjustu tölur fyrir Stykkishólmsveg. Þar kemur fram að síðan í mars í ár hefur hver mánuðurinn sett nýtt met og stígandinn heldur því áfram, um tíu til fimmtán prósent á mánuði, milli ára.

Mynd-2

Ég hef einnig fylgst náið með aðsókn í Eldfjallasafn síðan það var opnað sumarið 2009. Heildarfjöldi gesta hefur undanfarið oftast verið um 5000 á ári, en aðsókn hefur aldrei verið jafn mikil og nú, sumarmánuðina árið 2016, með til dæmis 1461 gest í safninu í júlí mánuði. Þar af eru erlendir gestir um 75%, mest frá Norður Ameríku.
Hvernig bregðast Hólmarar við þessum aukna straum ferðamanna? Fjárfestar eru önnum kafnir við að veita meiri þjónustu í gistingu og veitingum, en bæjarfélagið virðist því miður ekki hafa tekið við sér. Ferðamenn vilja meir en mat og svefn. Þeir vilja einnig afþreyingu, helst menningartengda. Aðhlynning að söfnum bæjarins er í lágmarki og hefur reyndar dregist saman. Þetta viðhorf Stykkishólmsbæjar hefu mjög neikvæð áhrif á framhald reksturs Eldfjallasafns í þessum bæ.

Haraldur Sigurðsson