Fiskigratín mömmu hennar Helgu

11077949_10205338606098030_8902580033152246996_nTakk Stína mín fyrir þessa áskorun en ég er nú ekki “matráðurinn mikli” í Grunnskólanum heldur kenni ég heimilisfræði og lenti eiginlega óvart í því. Þar sem ég var með einhverjar skoðanir uppi um fagið var ég beðin um að taka það að mér. Gott á mig!! En það er bara gaman að kynnast krökkunum á annan hátt heldur en í bóklegri kennslu. Í rauninni er mamma mín miklu betri kokkur en ég og hef ég nýtt ýmislegt úr hennar smiðju. Á mínu heimili er mikil matvendni en þessi uppskrift klikkar ekki og ég er líka búin að prófa hana á nemendum og gerði hún mikla lukku.

Uppskrift fyrir 2 – 3

400 gr. ýsa eða þorskur – beinhreinsaður > soðin/n
2 eggjahvítur > þeyttar
2 eggjarauður
50 gr. smjörlíki
ca. 1 dl. hveiti
mjólk
aromat eftir smekk,
eða pipar og salt
brauðrasp

Bakið upp þykka sósu með smjörlíkinu, hveitinu, eggjarauðunum og mjólk. Blandið soðna fiskinum við og síðan þeyttum eggjahvítunum, varlega. Setjið í smurt eldfast mót, stráið brauðraspi yfir og bakið í 20 – 30 mín eða þangað til kássan hefur lyft sér vel.

Gott með soðnum kartöflum, bræddu smjöri, salati og tómatsósu ef vill.

En ef þið eruð að leita að góðum uppskriftum af hinu og þessu, farið þá bara inn á heimasíðu Grunnskólans, þar eru uppskriftir af öllu því sem framleitt er í heimilisfræðistofunni. Ég vil skora á næstu DÚLLU, hana Betu vinkonu mína en hún er Fanta góður kokkur

Helga Sveinsdóttir „yfirdúlla“