Fjölbreytt starf innanlands hjá Rauða krossinum

Rauði krossinn er stærsta mannúðarhreyfing heims og vinnur ýmis störf um allan heim í þágu þeirra sem minna mega sín. Meginmarkmið samtakanna er að vinna að mannúðarmálum með hlutleysi og óhlutdrægni að leiðarljósi. Þeir sem eru berskjaldaðir og í mestri þörf samkvæmt þarfagreiningum félagsins eru alltaf í fókus. Rauði krossinn á Íslandi vinnur margvísleg störf í þágu samfélagsins og má þar nefna ýmis verkefni sem miða að því að rjúfa félagslega einangrun fólks,  námskeið í skyndihjálp og sálrænum stuðningi, neyðarvarnir, fatasöfnun og rekstur sjúkrabíla.

Heimsóknavinir

Eitt af þeim verkefnum sem miða að því að rjúfa félagslega einangrun fólks eru heimsóknavinir.  Áður en heimsóknavinur getur hafið störf fer hann á heimsóknavinanámskeið, en hann skuldbindur sig til að starfa samkvæmt starfsreglum um heimsóknaþjónustu og er bundinn þagnarskyldu um persónuleg málefni gestgjafans. Að loknu námskeiði fer fulltrúi deildarinnar með sjálfboðaliðanum til viðkomandi einstaklings og síðan tekur vinurinn við. Auk undirbúningsnámskeiðsins eru sjálfboðaliðum boðin námskeið í almennri skyndihjálp og sálrænum stuðningi án endurgjalds, auk annarrar þjálfunar og fræðslu. Heimsóknirnar geta verið fjölbreyttar allt eftir því hvað heimsóknavinurinn og gestgjafinn koma sér saman um. Það getur verið um að ræða; kaffispjall, gönguferðir, ökuferðir, bíóferðir, söngstundir. Samverustundirnar eru einu sinni í viku og standa yfir í klukkustund í senn. Heimsóknavinir eru fólk í sjálfboðavinnu sem hefur áhuga á mannlegum samskiptum og hefur bæði tíma og áhuga á að láta gott af sér leiða. Bæði gestgjafi og heimsóknavinur fá alltaf eitthvað uppbyggilegt út úr samverunni, því allir hafa þörf fyrir mannleg samskipti og enginn á skilið að vera félagslega einangraður. 

Símon B. Hjaltalín