Þriðjudagur , 20. nóvember 2018

Flokkun og endurnýting

Í Stykkishólmspóstinum þann 2. nóvember síðastliðinn kom fram að hlutfall sorps sem fer til endurvinnslu hefur minnkað hér í okkar annars ágæta bæ. Það er ekki ásættanlegt. Mér finnst það vera verkefni sem við þurfum að einhenda okkur í að kippa í lag.
Við getum gert svo miklu betur.
En til þess þarf stöðugt að minna á og koma með smá innlegg og fræðslu um flokkun.
Við höfum svolítið sofnað á verðinum. Að flokka er verkefni sem lýkur aldrei. Sífellt koma nýjar umbúðir á markaðinn sem þarf að upplýsa um hvar eiga að enda. Svo koma líka nýir íbúar í bæinn og þá þarf að fræða og hvetja til flokkunar.
Í Ásbyrgi leggjum við mikinn metnað í að flokka rétt. Við viljum leggja okkar af mörkum til að minnka plastnotkun.
Fjölnota pokar af öllum stærðum og gerðum fást hjá okkur. T.d. fánapokar sem henta sérstaklega vel undir flöskur og dósir. Hjá dósamóttökunni er hægt að losa úr pokunum og nota því sama pokann aftur og aftur. Það má svo þvo pokana í þvottavél þegar þeir verða óhreinir.
Grænmetis- og ávaxtapokar eru snilldin ein og koma í stað þunnu pokanna í Bónus. Þetta eru fallegir pokar unnir úr gardínum.
Öll skref skipta máli sama hversu lítil þau kunna að virðast í fyrstu.
Ásbyrgi er opið frá kl. 8 -16 alla virka daga. Við leggjum metnað okkar í endurnýtingu og tökum vel á móti ykkur. Saman skulum við standa okkur betur í flokkuninni og gera gott samfélag enn betra.

Með kveðju, Hanna Jónsdóttir starfsmaður í Ásbyrgi