Flóra Flateyjar

Föstudaginn 20. júlí næstkomandi ætlar starfsfólk Hótels Flateyjar að standa fyrir smáréttasmakki í Saltkjallaranum. Hófið hefst klukkan 20:00 og stendur til 22:00. Líkt og nafnið gefur til kynna þá verður flóra eyjarinnar í brennidepli en í Flatey er að finna ýmiss konar gróður sem skemmtilegt er að nota í matargerð, svo sem skessujurt, söl og njóla. Tónlistarmaðurinn Andi mun svo leika líflega danstónlist en hann hefur vakið mikla athygli undanfarið fyrir frumlegt og skemmtilegt íslando-diskó. Andi var að gefa út sína aðra breiðskífu nú á dögunum sem ber titilinn „Allt í einu“ og verður hún fáanleg á staðnum. Tekið verður við frjálsum framlögum í smáréttasmakkið. Viðburðurinn er sjálfstætt framtak starfsfólks hótelsins og mun ágóðinn renna til Framfarafélags Flateyjar. Nánari upplýsingar er að finna á Facebook-síðu Hótels Flateyjar. Allir hjartanlega velkomnir!