Föstuinngangur hefst

Næsta vika byrjar með þriggja daga hátíð. Bolludagur er á mánudaginn og hefst þá föstuinngangur, sem er síðustu þrír dagarnir fyrir lönguföstu. Allt gerist þetta 7 vikum fyrir páska. Þó svo að Íslendingar geri lítið að því þessa dagana að fasta fyrir páska halda þeir þó enn í þann sið að gæða sér á góðmeti þessa daga fyrir föstu. Foreldrar mega því vera viðbúnir snemma á mánudaginn þegar börnin koma með bolluvendina og flengja þau úr svefninum og í bollufjörið. Íslendingar geta þakkað Dönum fyrir þennan sið.

Gott er að ná sér niður úr óhófi rjóma og sykurs með því að borða sig saddan af saltkjöti og baunasúpu daginn eftir. Á kjötkveðjuhátíðinni sprengidegi er til siðs að klára allt kjöt vegna þess að við erum svo ramm-kaþólsk og borðum ekki kjöt fyrr en um páska. Það er fátt betra en gott saltkjöt og synd að það skuli einungis vera einu sinni á ári.

Það er ekki úr vegi að smella í sig vel af nammi á öskudaginn, til þess að vega upp á móti saltneyslu dagsins á undan. Askan er táknræn í kristinni trú sem hið forgengilega og var talin búa yfir hreinsandi krafti. Langafasta er tími iðrunar og hjálpar askan okkur að minnast á forgengileikann og svo hreinasr hún okkur af syndum okkar. Þess vegna klæða börn sig upp sem Elsa úr Frozen og Spider-man á öskudaginn og syngja fyrir nammi. Eitthvað hefur tíminn skolað til tilgangi dagsins auk breyttra gilda. Sem betur fer. Öskudagur er einn skemmtilegasti dagur í lífi barns. Börn þurfa ekkert að vera að spá í iðrun og að hreinsa sálina. Þau eiga syngja og hlaupa í búningum að eigin vali og njóta sín. Það eru reyndar ekkert einungis börn sem þurfa að klæða sig upp þennan dag. Gaman væri að sjá alla bæjarbúa smella sér í búning nk. miðvikudag. Muna bara líka að iðrast og allt það áður en þið gerist grænmetisætur í 7 vikur.