Frá bæjarstjóra Stykkishólmsbæjar

Bæjarráð ályktar um sérstakar umferðisöryggaðgerðir vegna umferðar við gististaði í bænum.

Sturla BöðvarssonÁ síðasta fundi bæjarráðs var fjallað um fjölmörg erindi þar sem óskað er eftir leyfi til þess að reka gistiþjónustu. Fjölgun erlendra ferðamanna sem streyma til okkar fagra lands kallar á uppbyggingu innviða og þar á meðal byggingu gistihúsa og hótela. Verulegar tekjur virðast vera af rekstri heimagistingar ef marka má aðsóknina í að fá rekstrarleyfi vegna þeirrar starfsemi. Bæjarstjórn hafa borist athugasemdir frá íbúum sem eðlilega óttast aukna umferð um íbúðargötur og slysahættu sem stafar frá umferðinni. Það er mat bæjarráðs að ekki sé mögulegt að leyfa einum en banna öðrum að reka heimagistingu. Þess í stað verði að setja reglur um fjölda bílastæða og aðkomu að gistihúsunum. Til þess að bregðast við var svofelld bókun samþykkt á fundi bæjarráðs 23. Júlí 2015.

„Vegna fjölmargra beiðna um rekstrarleyfi fyrir gistiþjónustu samþykkir bæjarráð að fela bæjarstjóra að láta vinna áætlun um sérstakar umferðaröryggisaðgerðir vegna aukinnar umferðar ökutækja í nágrenni gististaða. Að því komi bæjarráð, byggingafulltrúi, skipulags-og bygginganefnd og fulltrúar lögreglu.
Jafnframt verði gerð sérstök samþykkt um fjölda bílastæða við gistihús og heimagistingu sem verði þá innan lóða þeirra húsa þar sem gistingin er rekin samkvæmt rekstrarleyfi.
Bæjarráð leggur áherslu á að bæjaryfirvöld Stykkishólmsbæjar móti heildarsýn að skipulagi gististaða og heimagistingar í bænum.“

Undirbúningur við að vinna þessar reglur er þegar hafinn. Ljóst er að reglur um umferð og bílastæði þurfa einnig að ná til umferðar rútubíla og flutningabíla því þörfin fyrir bílastæði fyrir rútur er mjög vaxandi. Þess ber að geta að unnið er að því að deiliskipuleggja hafnarsvæðið með tilliti til þess að selja þar aðgang að bílastæðum. Þess er að vænta að gott samstarf geti orðið við íbúa bæjarins um þessar aðgerðir sem allar miða að því að bæta búsetuskilyrðin í bænum og tryggja að ekki verði raskað þeirri mynd friðsældar sem þarf að ríkja í okkar fallega bæ.

Stykkishólmi 25.7.2015
Sturla Böðvarsson bæjarstjóri Stykkishólmsbæjar