Þriðjudagur , 22. janúar 2019

Frá leikskólanum í Stykkishólmi

Dagur leikskólans er 6. febrúar. Leikskólar um allt land gera ýmislegt til þess að halda upp á þann dag.
Í leikskólanum í Stykkishólmi var að þessu sinni ákveðið að gefa út nýja og endurbætta skólanámsskrá á þessum degi. Allir kennarar skólans hafa unnið að skólanámsskránni og höfum við nýtt okkur starfsdaga okkar en við eigum aðeins þrjá heila starfsdaga á ári, þannig að þetta hefur tekið langan tíma.

Á lokasprettinum tók Ingibjörg E. Jónsdóttir leikskólakennari og ráðgjafi að sér að setja upp og ganga frá námsskránni. Skólanámsskrá leikskólans í Stykkishólmi er aðgengileg á heimasíðu okkar leikskoli.stykkisholmur.is. Eins er aðgengilegt 60 ára afmælisrit leikskólans á heimasíðunni. Þar er afmæli leikskólans gerð góð skil í máli og myndum.

Í tilefni dags leikskólans ætlum við að hafa heimsóknardag föstudaginn 9. febrúar frá kl 14:30 til 16:00. (Bakki opnar kl. 15:00) Þann dag geta börnin boðið þeim sem þau vilja í heimsókn en þessi dagur var áður kallaður afa og ömmudagur. Þetta er gott tækifæri til að heimsækja okkur og kynnast starfinu á deildum, nú eru börnin á fullum krafti að hanna og búa til öskudagsbúningana sína.

Í vor er fyrirhuguð náms-og kynnisferð okkar til Brighton á Englandi þar sem Oddfríður Traustadóttir tekur á móti okkur. Þar förum við í heimsóknir í skóla og förum á ýmis námskeið. Þessi ferð er nokkurskonar endir á góðu afmælisári leikskólans í Stykkishólmi.

Sigrún Þórsteinsdóttir leikskólastjóri