Frábær upplifun í Frystiklefanum!

genesisSunnudagskvöldið 14. ágúst skellti undirritaður sér með fjölskyldu sinni í Frystiklefann þar sem tilgangurinn var að sjá gamanleikinn Genesis og varð svo sannarlega ekki fyrir vonbrigðum og hér er ástæðan.
Genesis er einnar konu gamanleikur byggður á sköpurnarsögu Biblíunnar. Trúðurinn Aðalheiður, leikinn af Völu Kristínu Eiríksdóttur leiðir áhorfendur í gegnum sköpunarsöguna eins og hún skilur hana og skáldar í eyðurnar. Verkið er samið af Völu og Kára Viðarssyni og sér Kári um leikstjórn.

Vala Kristín er ein af okkar frábæru og upprennandi leikurum og hér fær hún tækifæri að blómstra í krefjandi hlutverki sem hún skilar á stórkostlegan hátt. Sýningin er öll fagmannlega unnin. Fer þar saman lögn leikstjórans,
frábær leikur Völu Kristínar sem trúðurinn Aðalheiður, lýsing og sviðsmynd.
Leikform trúðsins er vandmeðfarið og getur auðveldlega snúist upp í andhverfu sína, Eitt aðaleinkenni í leik trúðsins er samband hans við áhorfendur. Nær Vala Kristin einstöku sambandi sem heldur alla sýningu með leikgleðina að leiðarljósi og gerir hana svo frábæra eins og raun ber vitni.
Verkið er bráðfyndið og öryggi Völu Kristínar í hlutverki trúðsins einstaklega vel unnið. Sýningin fer fram á ensku en mjög auðskiljanlegri og komst allt vel til skila í máltjáningu trúðsins Aðalheiðar. Sviðsmynd og lýsing er einföld sem gefur verkinu réttan tón. Tónlistin í verkinu fellur einstaklega vel að framvindu verksins og lokalagið er svo mikil snilld og skal það látið ósagt hér, áhorfendur verða að upplifa það sjálfir. Einnig verður að nefna leikmuni í verkinu sem þú áhorfandi góður verður að vera vitni að. Sýnir það á einfaldan hátt hvernig leikhús lifnar við á skemmtilegan og áhrfaríkan hátt. Tæknin er notuð á nútímalegan hátt þar sem ónefndur aðili lentir í skemmtilegu spjalli við trúðin. Atriði sem kom skemmtilega á óvart.

Genesis er enn ein stóra rósin í hnappagat Frystiklefans. Ber það aðstandendum leikhúsins vitni hvernig góð leikhús eiga að vera og metnaður fyrir listinni til mikillar fyrirmyndar. Lifi listin í allri sinni mynd og til hamingju Frystiklefinn.

Gunnsteinn Sigurðsson