Framþróun

Margir kunna að velta því fyrir sér hvað sveitarfélagið getur gert í atvinnumálum.  Í sannleika sagt þá stjórnast atvinnumál af þáttum sem sveitastjórnir ráða lítið eða ekki við. 

    Margir kunna að velta því fyrir sér hvað sveitarfélagið getur gert í atvinnumálum.  Í sannleika sagt þá stjórnast atvinnumál af þáttum sem sveitastjórnir ráða lítið eða ekki við.  Þrautreynt er að sveitarstjórnir taki þátt með beinum hætti í atvinnurekstri eða ábyrgðum á skuldum fyrirtækja.  Auk þess felst í því að sveitarfélag getur verið að hygla einum umfram annan sem er brot á jafnræðissjónarmiðum. 

     Tækifæri sveitarstjórna í atvinnumálum liggja í stuðningi við nýsköpun og frumkvöðlastarf í atvinnulífinu.  Þannig er hægt að skapa skilyrði fyrir fyrirtæki eða einstaklinga til að feta braut einkaframtaksins.  Á undanförnum árum hefur ríkisvaldið flutt opinberar stofnanir og störf út á land.  Við höfum notið þess með flutningi Rannsóknarnefndar sjóslysa til Stykkishólms og á árinu 2007 hefur verið ákveðið að hingað flytjist hluti af starfsemi á vegum Fiskistofu alls um sjö stöðugildi. 

     Nú á dögunum hóf störf forstöðumaður Háskólaseturs Snæfellsnes en setrið er rannsóknarsetur og mun starfa í nánum tengslum við Náttúrustofu Vesturlands að rannsókna- og fræðastarfi.  Þarna er gríðarlegt tækifæri fyrir okkur að efla og styrkja atvinnuþróun í bænum.  Að okkar mati er þetta eingöngu byrjunin á mikilli grósku hér í bæ.  Rannsókna- og fræðastarf er ein af meginforsendum fyrir uppbyggingu nýrra atvinnutækifæra.  Í þessu sambandi megum við ekki gleyma Náttúrustofu Vesturlands og því frábæra starfi sem þar hefur verið unnið. 

     D- listi sjálfstæðismanna og óháðra hefur lagt fram stefnuskrá sína. Þar kemur skýrt fram að grunnforsenda blómlegrar byggðar er öflugt atvinnulíf sem rekið er af fyrirtækjum og einstaklingum. Til þess að svo geti verið þá er nauðsynlegt að styðja við og efla rannsókna- og fræðastarf sem nú þegar hefur verið lagður grunnur að.  Sömuleiðis teljum við D-listafólk aðkallandi að mótuð verði skýrt skilgreind atvinnustefna fyrir Stykkishólm og það verði gert í samstarfi við Eflingu. Í slíkri stefnumótun fer fram mikil greiningarvinna á stöðu mála auk skilgreiningar á framtíðarsýn og að lokum mótun stefnunnar og þær leiðir sem færar eru að henni.  Með öðrum orðum hvernig við ætlum að skapa skilyrði til framþróunar atvinnulífs og fjölgunar starfa.

     Í stefnuskrá okkar eru málefni sem vel gætu átt heima í slíkri atvinnustefnu.  Við leggjum áherslu á að bjóða einstaklingum og fyrirtækjum aðstoð vegna nýsköpunar í atvinnumálum.  Einnig ætlum við okkur að þrýsta enn frekar á stjórnvöld að fjölga opinberum störfum í bæjarfélaginu.  Þessu tengt er áhersla okkar á að stjórnvöld auki rannsóknir á skeljastofninum og höfum við í huga að Háskólasetrið eflist í því sambandi.  Ein hugmyndin er að fara af stað með átak til að kynna Stykkishólm sem raunhæfan og fýsilegan kost fyrir atvinnustarfsemi.  Við teljum að eins og staða mála er hér, að viðbættri markvissri atvinnustefnu, þá getum við með öflugu kynningarstarfi komið Stykkishólmi á kortið sem góðan valkost fyrir fjölbreytta og umhverfisvæna atvinnustarfsemi.

     Plássins vegna get ég ekki minnst á alla þá fjölbreyttu og stórhuga starfsemi sem þegar er fyrir hér í bæ.  Að sjálfsögðu munum við áfram hlúa að þeirri atvinnustarfsemi.  Við fullyrðum að með skýrri atvinnustefnu getum við leitt bæjarfélagið á vit framþróunar í atvinnumálum og fjölgunar starfa.

 

 

Ólafur Guðmundsson, yfirlögregluþjónn

Skipar 3. sæti á D- lista sjálfstæðismanna og óháðra