Framtíð amtbókasafnsins í Stykkishólmi

Undirrituð voru tilnefnd af bæjarstjórn í lok síðasta árs í vinnuhóp vegna flutnings bókasafnsins í nýtt húsnæði.

Undirrituð voru tilnefnd af bæjarstjórn í lok síðasta árs í vinnuhóp vegna flutnings bókasafnsins í nýtt húsnæði.  Með nefndinni störfuðu Sigurlína Sigurbjörnsdóttir, forstöðumaður bókasafnsins og Erla Friðriksdóttir bæjarstjóri. 

    Í síðustu viku lauk nefndin störfum með því að leggja fram tvær tillögur til bæjarstjórnar.  Önnur tillagan var að keypt yrði fyrirhuguð bygging Skipavíkur við Aðalgötu samtals 453 fm að stærð og bókasafninu komið þar fyrir til frambúðar.  Hin tillagan sem bæjarstjórn samþykkti samhljóða á síðasta fundi er að bókasafnið verði flutt til bráðabirgða til tveggja ára í húnsæði við Hafnargötu 7 þar sem Skipavíkur­verslunin er nú til húsa.  Húsinu verði komið í viðunandi horf áður en safnið verði flutt þar inn og jafnframt hefjist strax vinna við að ákveða endanlega staðsetningu safnsins, síðan hönnun þess og bygging.  Gert er ráð fyrir því að endurbótum á húsinu verði lokið í nóvember á þessu ári og þá verði hægt að flytja safnið.

     Starf nefndarinnar reyndist æði flókið.  Ýmsar vangaveltur um hentuga staðsetningu og húsakynni voru rædd má þar m.a. nefna pósthúsbygginguna þegar pósthúsið flytur í nýtt húsnæði, gamla barnaskólann þegar stækkun skólans við Borgarbraut er lokið, leikskólabygginguna á sjúkrahúsinu þegar leikskólinn flytur í nýtt húsnæði og nýbyggingu á safnasvæðinu.  Einnig var rætt um hugsanlega samlegðarmöguleika s.s. bókasafn og héraðsskjalasafn og bókasafn og eldfjallasafn.  Einnig var ræddur sá möguleiki að sameina byggingu bókasafns við fyrirhugaða stækkun grunnskólans við Borgarbraut.

    Sá kostur sem valin var er ódýrari fyrir bæjarfélagið heldur en að ráðast strax í nýbyggingu.  Vaxtakostnaður í tvö ár er hærri en kostnaðarmat á þeim framkvæmdum sem fram þurfa að fara til að koma bókasafninu fyrir við Hafnargötu svo viðunandi sé.  Bókasafnið verður miðsvæðis a.m.k. á meðan bráðabirgðalausnin varir og hleypir vonandi auknu lífi í fallega miðbæinn okkar.  Aðgengi þess batnar og þó það verði svipað að stærð þá nýtist plássið betur þar sem húsið er á einni hæð en ekki tveimur eins og núverandi húsnæði. 

     En er verið að ýta bókasafninu úr núverandi húsnæði til að rýma fyrir Vatnasafni?

Þessari spurningu hefur verið velt upp og það var líka rætt í nefndinni hvort lausnin væri ekki að láta Vatnasafnið lönd og leið og halda starfsemi bókasafnsins áfram í núverandi húsnæði.

    Það er löngu ljóst og hefur verið rætt lengi að þörf er á betra húsnæði fyrir bókasafnið og á bættu aðgengi þess.  Þegar listakonan Roni Horn var á ferðinni hér fyrir nokkrum árum kom hún við á bókasafninu og hreifst af því eins og svo margir aðrir.  Þá fékk hún þær upplýsingar að húsnæði bókasafnsins væri barn síns tíma og þyrfti að flytjast í hentugra húsnæði.  Í kjölfarið íhugaði hún hver framtíð hússins á Bókhlöðustígnum gæti orðið og hugmyndin að setja Vatnasafn í húsið kviknaði.

     Kostirnir við að flytja bókasafnið á þessu ári í stað þess að bíða eftir að hentugt húsnæði losni eða byggt verði nýtt eru þeir að bæjarfélagið ræður við það fjárhagslega og Vatnasafnið getur þá orðið að veruleika, bæjarfélagið missir ekki það tækifæri sem nú býðst að gera húsið áfram aðgengilegt öllum.  Húsið verður gert upp og innréttuð íbúð í kjallaranum sem ætluð er fyrir rithöfunda sem geta dvalið þar við skriftir í sex mánuði í senn.  Bókasafnið flyst framar í forgangsröð framkvæmdaáætlunar bæjarins.  Á þessu ári er verið að byggja leikskóla, að því verkefni loknu er áformað að stækka húsnæði grunnskólans við Borgarbraut og þar á eftir hefði bygging bókasafnsins komið.  Nú er búið að flýta þeirri áætlun og nýtt húsnæði fyrir bókasafnið komið á áætlun samhliða stækkun grunnskólans.

      Auðvitað hefði draumalausnin verið sú að gera þetta allt í einu.  En eins og við öll vitum sem rekum heimili að þá þarf yfirleitt að skipuleggja hlutina þannig að þeir passi buddunni sem best og þannig er það einnig þegar horft er til reksturs sveitarfélags.

 

Stykkishólmi 20. febrúar 2006

Davíð Sveinsson, Guðrún A. Gunnarsdóttir, Gretar D. Pálsson.