Framtíð Amtbókasafnsins

Ritstjóri Stykkishólmspóstsins hvatti okkur bæjarbúa til að láta álit okkar í ljós um framtíð amtbókasafnsins, þar sem það stendur nú á krossgötum.

Ritstjóri Stykkishólmspóstsins hvatti okkur bæjarbúa til að láta álit okkar í ljós um framtíð amtbókasafnsins, þar sem það stendur nú á krossgötum.   Af þeim sökum langar mig að leggja nokkur orð í belg.
Amtbókasafnið var stofnað hér í bæ 1845. Var það fyrir atorku merkra manna og voru þar fremstir í flokki þeir Bjarni amtmaður Thorsteinsson og sr. Pétur Pétursson á Staðarstað. Hafði sú barátta að fá bókasafn í Vesturamtið staðið alveg síðan uppúr 1840.
Fór sr. Pétur meðal annars sérstaka ferð til Kaupmannahafnar til að vinna málinu fylgi. Einnig fór fram fjársöfnun til stuðnings safninu. Er þetta löng saga og merk. Það að safninu var valinn staður í Stykkishólmi var staðnum lyftistöng á þeim tíma. Gaman er að lesa rök manna fyrir staðarvalinu. Nefnt er  að í Stykkishólmi sé blómleg verslun  og þar sé  apotek. Einnig séu í Stykkishólmi og nágrenni fleiri menntaðir menn en víða annars staðar. Því ætti að vera auðvelt að stjórna safninu svo að sómi væri að.
Fyrir aldamótin 1900 var svo byggt yfir safnið á Þinghúshöfðanum  og hlýtur að teljast stórhuga að velja þennan stað, þar sem síðar var svo byggt glæsilegt hús sem við þekkjum í dag. Sorglegt er að nú skuli safnið  vera á leiðinni nánast  á upphafsreitinn, örstutt frá Norska húsinu þar sem safnið var á fyrstu árunum í kössum hjá Árna Thorlaciusi.
Mín skoðun er sú að fyrst að safnið er nú á götunni, beri okkur að byggja yfir það glæsilegt hús. Það ætti að vera staðsett í gamla miðbænum þar sem nóg pláss er fyrir hendi. Þar ætti líka að vera pláss fyrir önnur söfn, svo sem ljósmyndasafn og skjalasafn. Í umræðunni hefur verið að byggja bókasafnið með eða í tengslum við skólann og sameina það jafnvel skólasafninu.
Það tel ég ekki góðan kost fyrir hvorugt safnið. Skólabókasafnið á skilið að eflast og njóta virðingar og fá betri aðstöðu en nú er.
En við verðum að gæta að þeim arfi sem býr í amtbókasafninu okkar. Því verðum við að hugsa stórt, og ekki vera minni menn en forfeður okkar sem byggðu hús með turni á Þinghúshöfðanum, heldur byggja safninu stórt og glæsilegt húsnæði.

Anna Birna bókaormur