Þriðjudagur , 22. janúar 2019

Framtíð Amtsbókasafnsins í Stykkishólmi

Ágæti lesandi.
Hér í Stykkishólmspóstinum ,nýverið, gat að líta í tvígang umfjöllun um Amtsbókasafnið í Stykkishólmi.

Ágæti lesandi.
Hér í Stykkishólmspóstinum ,nýverið, gat að líta í tvígang umfjöllun um Amtsbókasafnið í Stykkishólmi.  Þar var annars vegar á ferðinni grein frá lesanda sem lýsti áhyggjum sínum vegna framtíðar bókasafnsins, og hinsvegar var um að ræða frétt í afar knöppum naumhyggjustíl um frágang samninga milli Stykkishólmsbæjar annarsvegar og listamanna fjármögnunarfélagsins Art Angel Trust hinsvegar, um leigu á Bókhlöðunni á þinghúshöfða undir svonefnt „Vatnasafn“ og það sem því fylgir.
Það er ekki að ófyrirsynju að einhverjir hafi áhyggjur af framtíð Amtsbókasafnsins eins og framvinda mála hefur verið hingað til í þeim efnum.   Nú á þessum tíma mótum þegar Amtsbókasafnið er opinberlega komið á hrakhóla í húsnæðismálum er rétt að fara yfir  stöðu mála og benda á nokkra útgangspunkta sem vert er að hafa í huga við ákvarðanir um framtíð Amtsbókasafnsins.    Ég hef ekki geð í mér til þess að fara að ræða frekar tildrög þess að Amtsbókasafnið er nú á leiðinni í útlegð í Skipavíkurbúðinni um ófyrirsjáanlega framtíð.  Það er orðinn hlutur og öllum til vansa er um það véluðu.
Nú í vor þegar ný bæjarstjórn tók við og skipað var í nefndir og ráð hefði verið sjálfsagt, rétt og eðlilegt að fela safna-og menningarmálanefnd að fjalla um framtíð Amtsbókasafnsins og safna sem því tengjast við þessar nýju aðstæður sem upp eru komnar.   Þess í stað var haldið áfram á þeirri undarlegu fjallabaksleið að troða málefnum Amtbókasafnsins uppá hóp þann sem falið var að fjalla um framtíðar húsnæðismál skólastofnana bæjarins.  Þessi ráðstöfun er afar undarleg þar sem Amts-bókasafnið og söfn því tengd eiga sér enga ótvíræða málsvara í þessari nefnd, en  þeir þurfa að sjálfsögðu að vera til staðar þannig að Amtsbókasafnið fái notið jafnréttis og sannmælis og endi ekki sem hornreka innan skólakerfisins hjá Stykkishólmsbæ.
Í Erindisbréfi Stýrihóps um stækkun grunnskóla og byggingu tónlistarskóla er ekki gert ráð fyrir því að amtsbókavörður eða aðilar á vegum safna og menningarmálanefndar eigi sæti í stýrihópnum http://www.stykkisholmur.is/Files/Skra_0014147.pdf
Nefndin er fyrst og fremst að fjalla um hvaða hag skólinn gæti haft af  samrekstri með bókasafninu, en ekki því hvort Amtsbókasafnið kunni að skaðast á slíku samkrulli.   Samrekstur bæjar og skólabóka safna hefur mælst mjög misjafnlega fyrir hér á landi svo ekki sé meira sagt og nægir þar að benda á erindið, „Samsteypusöfn, blessun eða bölvun“ sem flutt var á bókavarðaþingi fyrir fáum árum.  Öll umfjöllun um framtíð Amtsbókasafnsins verður að vera fyrst og fremst á forsendum bókasafnsins sjálfs, en ekki að snúast um það hvort aðrar stofnanir geti sparað sér einhverja fermetra af ný-byggingum með því að tvímenna í vinnuaðstöðu eða öðrum rýmum bókasafnsins.
Önnur ástæða og ekki veigaminni fyrir því að safna og menningarmálanefnd eða vinnuhópur á hennar vegum þurfi  að fjalla um málefni Amtbókasafnsins, er framtíð þeirra frumgagna sem eru í vörslu safnsins en þar er um að ræða annarsvegar skjalagögn ýmiskonar sem fylla eldtraustan klefa í kjallara bókasafnsins og hinsvegar ljósmyndasafnið, sem mér skilst að  nú hafi verið lokað um óákveðinn tíma vegna óvissu um aðstöðu í framtíðinni.
Í samkomulagi um stofnun Héraðsnefndar Snæfellinga ,árið 1989 segir orðrétt í 3.grein, 2 lið:
„Stykkishólmsbær yfirtekur Amtsbókasafnið í Stykkishólmi með eftirtöldum skilmálum:
2. Stykkishólmsbær tekur að sér í nafni héraðsnefndar að koma upp héraðsskjalasafni í tengslum við Amtsbókasafnið.   Um Rekstur héraðsskjalasafns verði gerður sérstakur samningur milli héraðsnefndar og Stykkishólmsbæjar.“
Í afhendingarbréfi fyrir Ljósmyndasafn Jóhanns Rafnssonar frá 1996 eru lagðar á Stykkishólmsbæ þær kvaðir að hann leggi ljósmyndasafninu til almennilega aðstöðu, en tapi safninu ella í hendur Þjóðminjasafnsins.
Af ofanskráðu má ljóst vera að framtíðarmál Amtbókasafnsins í Stykkishólmi  snúast um ýmislegt fleira en það hvort heppilegt sé að sameina skólabókasafnið og Amtsbókasafnið undir einn hatt.  Það er nefnilega þannig með sameiningar á söfnum eins og sameiningar á sveitarfélögum að fyrst verður að ræða málin á hvorum staðnum fyrir sig, gera upp stöðu mála og kynna sér væntingar til framtíðarinnar, þannig að menn viti „hvað“ á að sameina áður en menn skoða „Hvort“ á að sameina.
Það er algert grundvallaratriði að bæjarbúar hafi  á hreinu hverskonar bókasafn (og hliðarsöfn) við ætlum að hafa hér í Stykkishólmi til framtíðar áður en það er farið að skoða samrekstur við skólabókasafn, staðsetningu safns og annað í þeim dúr.
Eðlilegast er að safna og menningarmálanefnd fjalli um framtíðarmál ofangreindra safna og geri tillögur í þeim efnum, enda er það hlutverk hennar í samræmi við erindisbréf nefndarinnar.  Í erindisbréfinu segir meðal annars:
Hlutverk nefndarinnar er:
Að vera bæjarstjórn til ráðgjafar í safna- og menningarmálum.
Að hafa eftirlit með því að samþykkt markmið bæjar-stjórnar í þessum málaflokkum  nái fram að ganga. (http://www.stykkisholmur.is/Files/Skra_0014146.pdf)
Í samræmi við ofanskráð hvet ég bæjarstjórn Stykkishólms til þess að koma málefnum Amtsbókasafnsins sem fyrst í réttan  farveg innan bæjarkerfisins (til safna- og menningar málanefndar) þannig að hægt verði að vinna að framtíðarmálum bókasafnsins með viðunandi hætti .

Virðingarfyllst,
Ægir Jóhannsson