Framtíð st.Franciskusspítala

Jósep Ó.Blöndal, 14. sæti Okkar Stykkisholmur

St.Franciskusspítali er meðal þeirra stofnana, sem tengdar eru við Stykkishólm í hugum landsmanna, ekki hvað sízt Háls- og bakdeild, sem frá upphafi hefur greint og meðhöndlað á 6. þúsund Íslendinga.
Spítalinn var sameinaður 7 öðrum stofnunum í Heilbrigðisstofnun Vesturlands í janúar, 2010. Samskiptum við stjórn þeirrar stofnunar hefur verið lýst á öðrum vettvangi.
Vorið 2011 var að frumkvæði heilbrigðisráðuneytis komið á fót samstarfshópi bæjarstjórnar Stykkishólms, stjórnar HVE og fagfólks SFS til að ræða framtíðarstarfsemi spítalans og bera fram tillögur þar um.
Tillögurnar voru skýrar: 1) Háls- og bakdeild skyldi efld, 2) spítalinn yrði bráðasjúkrahús fyrir allt Snæfellsnes í völdum sjúkdómstilfellum, og 3) að hjúkrunarsjúklingar af Dvalarheimili Stykkishólms yrðu fluttir á SFS eftir að viðeigandi breytingar hefðu verið gerðar á húsnæði spítalans.
Fráfarandi bæjarstjórn virðist nú – 7 árum síðar – hafa komið áfanga 3) nokkurn veginn í höfn. Það hefur hins vegar valdið þeim, sem hér ritar, vonbrigðum, að engin merki finnast um að hún hafi barizt fyrir að fyrri tillögurnar tvær nytu brautargengis. Því er full ástæða til að skora á þá bæjarstjórn, sem við tekur, að taka mál spítalans og starfsemi hans til alvarlegrar umræðu við bæði ráðuneyti og stjórn HVE, sem og við Hólmara sjálfa. Þá er ástæða til að undirstrika mikilvægi þess, að stutt sé við starf Háls- og bakdeildar, og nægir í því sambandi að minna á orð varaformanns Félags Íslenskra Sjúkraþjálfara á 25 ára afmæli deidarinnar þess efnis, að hér væri að finna þá starfsemi, sem væri til mestrar fyrirmyndar fagfólki um land allt á sviði háls- og bakvandamála. Á Degi Sjúkraþjálfunar fyrir stuttu talaði Mark Comerford, heimsþekktur sérfræðingur á sviði bak- og hálsvandamála. Hann lýsti í löngum fyrirlestri þeim aðferðum, sem hæst væru skrifaðar af fagfólki, sérfræðingum og vísindamönnum á þessu sviði. Comerford var í raun að lýsa starfsemi Háls- og bakdeildar eins og hún hefur þróazt undanfarin 25 ár.

Beztu kveðjur,
Jósep Ó.Blöndal, fv.sjúkrahúslæknir,
14. sæti Okkar Stykkisholmur