Fréttir frá Byggðasafni Snæfellinga og Hnappdæla

Frá 3. júní hefur staðið yfir á safninu sýningin Gluggi til fortíðar, gersemar nútíðar og arfur framtíðar. Endurgerð Norska hússins.  Sýningin verður tekin niður 16. nóvember og verður síðar sett upp á Átthagastofu Snæfellsbæjar. Við viljum því hvetja þá er eiga eftir að sjá sýninguna að kíkja við í Norska húsið. Safnið er opið alla virka daga frá kl. 09-16 og á laugardögum frá kl. 09-12:30.

Stykkishólmur í aðdraganda fullveldis. Ljósmyndasafn Stykkishólms og Byggðasafnið opnuðu sameiginlega sýningu 27. október síðastliðinn á Amtsbóksafninu. Á sýningunni gefur meðal annars að líta ljósmyndir af mörgum íbúum sem bjuggu í Stykkishólmi árið 1918 sem og manntal frá sama ári og bréf frá mönnum hér í Hólminum sem skrifðust á við Jón Sigurðsson. Sýningaspjöld er segja sögu Stykkishólms í aðdraganda fullveldis og hin ýmsu skjöl tengd Stykkishólmi á því merka ári 1918, meðal annars um spænsku veikina, verlsun í Stykkishólmi, sambandslögin, dagbók fangelsis og margt fleira. Sýningin er opin á opnunartíma Amtsbókasafnsins.

Jólasýning. Þann 1. desember verður mikið um að vera á Byggðasafninu en þá opnar jólasýning safnsins, þemað í ár er jólamatur. Safnið óskar því eftir ljósmyndum sem tengjast jólum og matargerð. Til dæmis ljósmyndir teknar við bakstur eða annan undirbúning fyrir jólin. Einnig gömlum munum til láns eins og t.d. áhöldum til martargerðar tengt jólum, smákökubox o.s.frv.

Þjóðbúningahátíðin Skotthúfan. Ár hvert heldur safnið þjóðbúningahátíð á sumrin. Vegna 100 ára fullveldisafmælis Íslands verður einnig haldin þjóðbúningahátíð þann 1. desember næstkomandi, á sjálfan afmælisdag fullveldisins. Gestum í þjóðbúning er boðið í kaffi og kökur í betri stofum Norska hússins og um kvöldið verða haldnir þjóðlegir tónleikar í gömlu kirkjunni.

Hjördís Pálsdóttir