Fréttir úr Tónlistarskóla Stykkishólms

Hvert skólaár hefur sinn sérstaka svip, vonir og væntingar. Hver verða viðfangsefnin, hverjir verða að kenna, hvaða viðburðir verða á skóladagatalinu o.s.frv. Og alltaf hlökkum við til. Nú er mánuður liðinn frá því skólastarf hófst – en enn er einn kennarinn ekki kominn til starfa. Loksins sést þó fyrir endann á biðinni eftir Anastasiu Kiakhidi, því nú hefur Útlendingastofnun gefið út dvalarleyfi fyrir hana og dóttur hennar. Hún verður því komin til kennslu eftir helgi.

Þessi bið og óvissa hefur sannarlega sett svip á skólastarfið, því auk þess að tréblástursnemendurnir hafi beðið eftir kennaranum sínum þá hefur stóra lúðrasveitin líka þurft að bíða þar sem Anastasia mun stjórna henni í vetur. En önnur kennsla er þó komin á fulla ferð.

Nýi kennarinn frá Noregi, hann Andreas, er komin á fulla ferð með sína nemendur sem og aðrir “gamlir og góðir” kennarar, en Andreas mun einnig stjórna litlu lúðrasveitinni. Eitt af því sem í boði er nú í vetur er opinn söngsalur eða söngtími fyrir nemendur í 3.-10. bekk. Þar ætlar Hólmfríður söngkennari að vera með fjölbreyttar söngæfingar, þjálfa nemendur í að syngja einsöng eða saman, einraddað og í röddum, prófa að syngja í míkrafón og fleira skemmtilegt. Tímarnir eru á föstudögum kl. 13:30-14:15 fyrir 3.-6. bekk og kl. 14:15-15:00 fyrir 7.-10. bekk. Það þarf ekki að skrá sig fyrirfram, bara að mæta. Næstu tímar eru á morgun!

Það sem nú ber hæst, annað en að búa okkur undir að taka vel á móti Anastasiu, er að þessa viku hafa verið hjá okkur í vinnubúðum tónlistarnemendur frá Listaháskóla Íslands undir handleiðslu Gunnars Ben. Það er venja hjá þeim í LHÍ að fara með fyrsta árs nemendur í vinnubúðir út á land í nokkra daga í upphafi skólaársins og varð Stykkishólmur fyrir valinu í þetta sinn. Hér hafa verið gerðar alls konar tónlistaræfingar og tilraunir og hafa nokkrir af lengst komnu nemendum okkar tekið þátt í hluta þeirra. Lýkur þessari vinnutörn með flutningi á tónverkum sem samin og unnin hafa verið í þessum vinnubúðum. Þetta verður einstakur viðburður þar sem þarna verða frumflutt mörg tónverk, sem sum verða kannski aldrei flutt aftur. Enginn má því missa af.

Tónleikarnir verða í sal tónlistarskólans í kvöld kl.20:00 og eru allir hjartanlega velkomnir.