Fréttir úr Tónlistarskólanum

Vorönnin er nú komin vel af stað og verið að undirbúa verkefni og viðburði sem henni tilheyra. Þá er mikilvægt að eiga gott samstarf við alla þá aðila sem starfa með börnum og unglingum hér í bæ, eins og grunnskólann, Snæfell, skátana, X-ið og kirkjuna. Við erum heppin að eiga góða að og njóta velvildar.

Í febrúarmánuði er jafnan mikið annríki í tónlistarskólanum. Verið er að undirbúa “dag tónlistarskólanna” sem við höldum hátíðlegan með veglegum tónleikum í kirkjunni okkar laugardaginn 25. febrúar. Eftir þessa tónleika verða valin þau tónlistaratriði sem við sendum á Nótuna 2017, uppskeruhátíð tónlistarskóla landsins.

Svæðistónleikar Nótunnar fyrir Vesturland og Vestfirði verða að þessu sinni haldnir á Akranesi 18. mars en lokatónleikarnir verða síðan í Hörpu 1. eða 2. apríl. Nemendur okkar hafa jafnan staðið sig vel á Nótunni og stundum tekið þátt í lokahátíðinni og fengið verðlaun og viðurkenningar. Hvað sem viðurkenningum og verðlaunum líður þá er þátttaka í Nótunni góð reynsla sem eykur víðsýni og skilning milli skóla og nemenda.

Undanfari þessara stóru viðburða eru tónfundir sem hver kennari heldur með nemendum sínum. Fyrsti tónfundurinn verður næstkomandi þriðjudag 14. febrúar og svo verða aðrir tónfundir í vikunni á eftir. Það er svo úrval þessara tónfunda sem við fáum að heyra og sjá á “degi tónlistarkólanna”.

Salur skólans hefur aldeilis fengið andlitslyftingu. Búið er að pússa og lakka gólfið og einnig er búið að smíða svið sem setja mun sterkan svip á viðburði skólans hér eftir.

Lúðrasveitin æfir nú í þremur deildum sem Andreas og Anastasia skipta á milli sín að stjórna. Sveitirnar undirbúa af kappi vortónleikana sína sem verða að þessu sinni haldnir fimmtudaginn 6. apríl og verða nánar auglýstir síðar. Æfingabúðir eru fastur liður í tónleikaundirbúningi og er verið að skipuleggja þær. Til stendur að halda fund með foreldrum lúðrasveitarbarnanna fimmtudaginn 16. febrúar þar sem farið verður yfir hið mikilvæga hlutverk foreldrafélagsins í starfi lúðrasveitarinnar. Litið verður yfir starfsemina síðastliðið ár en þar stendur Englandsferðin hæst. Eins verða lagðar línur fyrir það sem framundan er og kosið í stjórn.

Eins og sjá má er nóg um að vera í tónlistarskólanum og margt sem hægt er að hlakka til. Rétt er að minna á í lokin að allir eru ávalt velkomnir á tónfundi og tónleika skólans.

Jóhanna Guðmundsdóttir skólastjóri