Fullkomnar súkkulaðibitasmákökur

Ég verð að viðurkenna að ég hrökk nú aðeins við þegar hún Margrét frænka mín skoraði á mig í síðasta blaði því hún kallaði mig “brottfluttan Hólmara”, ég býst við að það sé rétt hjá henni, en Hólmurinn er alltaf “heima” fyrir mér og mér þykir vænt um að fá að taka örlítinn þátt í bæjarlífinu með smá skrifum hér. Því langar mig að deila með ykkur uppskrift af  súkkulaðibitakökum sem eru ótrúlega fljótlegar í bakstri og alveg hreint ofboðslega góðar.

 

Fullkomnar súkkulaðibitakökur !

3. egg

250 gr púðursykur

100 gr sykur

380 gr hveiti

1 tsk matarsódi

3/4 tsk Maldon salt eða álíka (já það skiptir máli)

2 msk vanilludropar/vanilluextract

250 gr bráðið smjör (alls ekki smjörlíki)

2-3 pokar Konsum súkkulaðidropar frá Nóa Síríus

 

Hrærið vel saman eggjum og sykri eða þar til blandan er orðin létt og froðukennd. Hveiti, matarsóda og salti hrært saman við eggjablönduna. Bráðið smjör og vanilludropar útí blönduna því næst og að lokum er Konsum dropunum hrært út í. Deigið á að vera frekar flétt, en samt ekki svo að þið getið mótað það með höndunum, ef svo er þarf að bleyta aðeins í því með heitu vatni.

Hitið ofninn í 170°C og setjið smjörpappír á bökunarplötu. Hæfileg stærð af kökum er um það bil 1 matskeið af deigi, en nauðsynlegt er að hafa gott bil á milli þeirra því kökurnar eiga að renna vel út í ofninum. Bakið í um það bil 12-15 mínútur, kökurnar eiga að vera mjúkar þegar þær koma úr ofninum. Gott er að láta þær kólna aðeins á plötunni.

Svo er bara að finna góðan felustað því þessar rjúka út !

Ég ætla að lokum að skora á annan brottfluttan Hólmara og yndislega æskuvinkonu mína af Sundabakkanum hana Erlu Ósk Ásgeirdóttur.

Þórey Thorlacius