Fyrirheitna landið!. …. Ásthildur Sturludóttir skrifar frá Ameríkunni

Ég lofaði ritstjóranum þegar hann nappaði mig í janúar á Narfeyrarstofu að  að senda pistil í blaðið við tækifæri og segja frá því hvað ég væri að bardúsa.

[mynd]Ég lofaði ritstjóranum þegar hann nappaði mig í janúar á Narfeyrarstofu að  að senda pistil í blaðið við tækifæri og segja frá því hvað ég væri að bardúsa. Tækifærið hefur ekki komið fyrr en núna, auðvitað þegar ég er á síðustu metrunum við að klára lokaritgerðina mína um einkavæðingu raforkufyrirtækja í Bandaríkjunum og á Norðurlöndum. Dæmigert að hafa allann tímann í veröldinni þegar í raun og veru enginn tími er til! Vaknað fyrir sjö og unnið til hálf eitt við skrif. Gott að láta hugann reika um stund og hvíla sig frá rafmagni, reglugerðum, stefnumótun, orkufyrirtækum, sveitarfélögum, réttindi, skyldum, skuldum og tekjum. Svo er líka alltaf svon notalegt að hugsa heim í Stykkishólm.

Fyrirheitna landið, Ameríka, var áfangastaðurinn í fyrra og hefur verið heimili mitt síðasta rúma árið  Tilhlökkun, kvíði og eftirvænting voru tilfinningarnar sem ég fann til þegar ég fór út. Tilhlökkun að byrja aftur í skóla og læra, kvíði fyrir því að takast á við nýtt umhverfi og verða blönk eftir 5 ár í vinnu. Eftirvænting eftir nýrri upplifun og reynslu. Þrátt fyrir það að vera orðin “fullorðin” þá var   útflutningurinn samt sem áður dálítið erfiður en eitthvað sem ég sé ekki eina sekúndu eftir að hafa gert. Það er nauðsynlegt að fara úr landi og læra aðeins því heimskt er  heimaalið barn eins og það stendur!

     Ég bý í Connecticut-fylki á austurströnd Bandaríkjanna, í örlitlum bæ sem heitir New Canaan. Hann minnir mig að mörgu leyti á Stykkishólm en með aðeins fleiri íbúa eða 10 þúsund manns sem er þó pínkulítið á hérlendan mælikvarða. Hef reyndar búið hérna á áður eða fyrir 9 árum og þá var ég AuPair stúlka. Íhaldssemin að drepa mig í búsetuvali! Ákveðið markmið að búa á ekki fleiri en 5 stöðum á lífsleiðinni! Ég bý í kjallaranum hjá fjölskyldunni sem ég var barnapía hjá. Þau eru íslensk og heitta Edda Birna og Magnús Gústafsson og dóttir þeirra er Birna. Það væsir sko ekki um mig hér, soðin ýsa á mánudögum og hafragrautur á morgnana!

     Skólinn minn er 20 mínútur í burtu frá heimili mínu, hann er í New York fylki, í borg sem heitir White Plains sem er einskonar Hafnarfjörður frá New York borg. Skólinn heitir PACE University, lítinn einkaskóli sem hefur verið að sækja verulega í sig veðrið undanfarið.  Það tekur mig svo ekki nema klukkutíma tæpan að renna niður á Manhattan að heiman, sem ég geri auðvitað eins oft og tími leyfir enda öllu meira um að vera þar en hérna heima þar sem fólk hátt fyrir 10 á kvöldin! Námið mitt er í opinberri stjórnsýslu, MPA, og mun ég útskrifast með meistaragráðu í maí ef guð lofar.

     Þetta er búið að vera puð, gríðarleg vinna og oft hef ég þurft að bíta mjög fast á jaxlinn. En ég hef haft árangur sem erfiði því námið hefur gengið mjög vel.  Hef reyndar gefið í og klára hálfu ári fyrr en venjulegt er sem ég sé núna að voru ákveðin mistök! Mér finnst tíminn nefnilega hafa liðið allt of hratt, ég er ekki almennilega búin að átta mig á því hvað það er dásamlegt að fá tækifæri til að búa um tíma erlendis og vera að læra. Þvílíkur lúxus, hef bara aldrei haft það jafn gott. Helst myndi ég vilja fara rakleiðis í meira nám en því miður býður tékkareikningurinn ekki upp á það þrátt fyrir hagstætt gengi! Það er líka dýrt að vera húsbyggjandi/eigandi í Hólminu.

      Skólinn er góður og kennararnir enn betri. Frábært að hafa beinan aðgang að prófessorunum eins og svona lítill skóli býður upp á. Dyrnar standa okkur nemendunum ávallt opnar ef einhverjar spurningar eða vandamál koma upp. Mér finnst það vera stór munur á prófessorunum á Íslandi og hér hversu áhugasamir þeir eru um þig og  leggja sig fram við að ná öllu út úr þér sem nemanda. Þú átt að ná hámarksárangri. Þetta er kannski bara út af því að ég borga þeim ríflega í háum skólagjöldum….??!!! Í fyrstu fannst mér þetta skrítið og næstum óþægilegt en núna er áhugasemi þeirra ómetanleg og jafnframt nauðsynleg.

      Bandaríkin eru almennt séð góður staður að búa á. Góður staður segi ég því fólkið er vinalegt og vill allt fyrir þig gera. Hjálpsemi er Könum í blóð borin. Alveg saman hversu vandamálið er lítið eða stórt, þeir vilja hjálpa.  Vinalegir og elskulegir en jafnframt er erfitt að nálgast þá meira en það, það tekur smá tíma. Hérna í bænum heilsast allir á göngu og ég þekki orðið nágrannana sem er voðalega notalegt! Kalla á Joe Carabbion í næsta húsi til að hjálpa mér með bílinn rétt eins og ég hef kallað Kidda Hjörleifs í gegnum tíðina til að ýta eða gefa start!  Það er hins vegar flókið að koma sér fyrir í Ameríku og það voru ófáar ferðirnar mínar í DMV(bifreiðaeftirlitið) til að taka bílprófið, fá ökuskírteini, koma með þessi og hin mögulegu og ómögulegu skjölin til að staðfesta tilvist mína, opna bankareikning, fá síma og að kaupa bíl var meiriháttar aðgerð. Gæti talið fleira upp.  Reglurnar hafa flækst mjög mikið fyrir Könunum hin síðustu ár og en það er víst einungis af öryggisástæðum and for my own safety, svo maður sletti nú aðeins!

      Það er ansi fjölmennur hópur Íslendinga sem er í námi á þessu svæði í kringum New York og upp til Boston. Enn skemmtilegri tilviljun að í þeim hópi eru fjölmargir sem voru með mér í menntaskóla og aftur í háskólanum. Við höldum ágætlega hópinn þrátt fyrir Íslendingafélag í dái. Hittumst oft og reynum að styðja hvort annað í baráttunni. Lífið hérna í Ameríku er svo sannarlega  lúxus og í anda við það sem ég vonaði að yrði og minnti að það væri, hér í sjálfu fyrirheitna landinu. Stúdentalífið er yndislegt og þrátt fyrir blankheit og geggjunarlegt álag þá  mun ég sakna þess ærlega þegar næstu verkefni taka við í sumar.

      Hér er komið vor, sólin skín og við Edda drukkum kaffið úti áðan. Eins og íslenskur sumardagur, 15 stiga hiti og dásamlegt. Frábær tilbreyting frá endalausum kulda sem er búinn að vera upp á síðkastið. Hlakka hinsvegar mest til að koma heim í maí enda hvergi vorfegurra en við Breiðafjörð.

 

Bið að heilsa í Hólminn!

 

Ásthildur Sturludóttir