Þriðjudagur , 22. janúar 2019

Fyrirlestraröð heppnaðist vel

Fyrirlestraröð Náttúrustofu Vesturlands lauk í síðustu viku er Menja von Schmalensee hjá Náttúrustofunni fjallaði um heimilisköttinn, sögu hans og áhrif á villt dýr, bæði á heimsvísu og hér á landi. Efnið vakti talsverðan áhuga og viðbrögð á samfélagsmiðlum, enda mörg ólík sjónarmið í umræðunni, eins og komið var inn á í erindinu. Mikilvægt er að lágmarka tjón á náttúru af völdum katta og skapa sátt um kattahald í samfélaginu.

Óhætt er að segja að fyrirlestraröðin hafi heppnast mjög vel og þakkar Náttúrustofan fyrir frábærar viðtökur. Að jafnaði mættu 24 á hvert erindi, sem telja verður afbragðs árangur, og ávallt sköpuðust áhugaverðar umræður í lok erindanna. Ekki hefur verið ákveðið hvort fyrirlestraröð í þessari mynd verði endurtekin en góðar viðtökur auka auðvitað líkurnar á því. Í öllu falli er ljóst að Náttúrustofan mun eins og áður leitast við að standa fyrir áhugaverðum opnum fræðsluerindum með einu eða öðru sniði.

Annir sumarsins eru fram undan hjá starfsfólki Náttúrustofunnar. Í vikunni hefst árleg vöktun á vatnafuglum og mófuglum og svo fylgja m.a. rannsóknir á bjargfuglum, refum, örnum, fiðrildum, botndýrum í Kolgrafafirði o.fl. Starfsmenn verða því stopult við á skrifstofunni í sumar, en hringja má í farsíma Náttúrustofunnar vilji fólk tilkynna um áhugaverð fyrirbrigði í náttúrunni.

Náttúrustofa Vesturlands