Þriðjudagur , 22. janúar 2019

Fyrirmyndardagur á Háskólasetrinu

Á fyrirmyndardeginum sem var haldinn í byrjun október var ég svo heppin að fá að heimsækja Háskólasetrið í Stykkishólmi þar sem Jón Einar vísindamaður sagði mér frá og sýndi hvað þau fást þar við. Á tveimur tímum sagði hann mér frá mörgu spennandi og sýndi mér vinnuna í myndum og lifandi.

Mér fannst mjög gaman að sjá hvað þau fást við á sumrin, en þá er skoðað fuglalífið í eyjum og skerjum á Breiðarfirðinum.

Ásbyrgi hefur verið að sauma poka fyrir Háskólasetrið og var mjög gaman að sjá hvernig þeir nota þá til að setja fuglinn í svo hægt sé að þyngdarmæla hann. Það er ýmislegt annað skoðað hjá fuglunum og eru til dæmis sett merki á fætur þeirra til að fylgjast betur með. Ég átti mjög erfitt með að ímynda mér hvernig hægt væri að setja þau upp á þessa litlu fuglafætur án þess að brjóta neitt.

Einnig er dún safnað úr sumum hreiðrum til að hægt sé að mæla hann og fylgjast með byggingu hans sem getur verið mismunandi milli einstaklinga. Mismunurinn felst í því að annaðhvort geta verið krækjur eða hnúðar á fiðrinu. Fleiri krækjur eru á æðardúni en t.d. grágæsardúni, og hefur hann lengri geislunga sem gerir það að verkum að loftið er meira í gæsardúninum og heldur hann því betur hitanum í hreiðrinu.

Starfsmenn Háskólasetursins fylgist með fleiru en fuglum, og er sjávarbotninn í Kolgrafarfirði eitt af verkefnunum. Ennþá er fylgst með botninum eftir að síldin komst þar á land árið 2014.

Jón Einar sagði að búið væri að greina sýnin 2017 og þá kom í ljós að botninn hefur ekki enn náð sér eftir áfallið.

Mér fannst merkilegast að sjá Nornakrabbann sem Ásmundur Guðmundsson veiddi úr Grundarfjarðarbrún 21.10 2013 og færði Háskólasetrinu. Krabbinn er mjög sjaldgæfur og óskaði Hafrannsóknarstofnun eftir að fá upplýsingar um hann. Það var mjög gaman að vera viðstödd mælingar og myndatökur fyrir það verkefni. Síðar fór hann í kyngreiningu og reyndist vera karldýr.

Niðurstöður rannsókna og upplýsingar sem starfsmenn Háskólasetursins verða vísari eru síðan teknar saman og skrifaðar upp og fer sú tölvuvinna mest fram á veturna.

Ég þakka Jóni Einari fyrir frábærar viðtökur og skemmtilega kynningu á starfinu. Greinilegt er að það er fjölbreytt og áhugavert.

Jóhanna Ómarsdóttir