Þriðjudagur , 20. nóvember 2018

Fyrirmyndardagur í Ásbyrgi

Í síðustu viku héldum við í Ásbyrgi upp á fyrirmyndardaginn.
En ástæðan fyrir því að dagurinn er haldinn er til að fólk með fötlun fái tækifæri til að kynnast fleiri störfum og jafnvel að auka líkur á vinnusamningi.
Allir starfsmenn Ásbyrgis fengu starfið sem þeir vildu skoða betur og er óhætt að segja að um fjölbreytni hafi verið að ræða í valinu.
Við viljum þakka Vinnumálastofnun fyrir frábært framtak og kaffiboð. Einnig öllum þeim vinnustöðum sem tóku þátt í að gefa okkur tækifæri til að taka þátt í þessum degi, sem er haldinn á sama tíma um allt land.

Áslaug Elva Skarphéðinsdóttir fannst gaman að prufa félagsstarfið.

Davíð Einar Davíðsson fór til B. Sturluson: Mér fannst gaman að vera með pabba mínum og fara með sendingu með Böðvari í Helgafelssveit. Ég myndi vilja vera að vinna þarna frá 8-14 eða 17:00.

Einar Marteinn Bergþórsson var hjá Íslenska gámafélaginu: Mér fannst mjög gaman, fannst gaman að vera með Svenna manninum hennar Unu og væri til í að vera að vinna þarna kanski 1 dag í viku. Takk kærlega fyrir mig.

Sigurður Fannar Gunnsteinsson fór í sundlaugina í Stykkishólmi: Mér fannst gaman að þrífa og gaman að prófa að vinna. Takk fyrir mig.

Helgi Jóhanna Ellertsson fór á dvalarheimilið: Mér fannst gaman að spjalla við fólkið og vera í góðum félagsskap. Ég er alveg til í að koma og hjálpa ef þarf.

Ólafía Sæunn Hafliðadóttir fór í Íslandspóst: Mér fannst gaman að sortera póstinn og verða svört í framan. Mér fannst ekkert auðvelt að bera út því það var svo vont veður og finnst Helgi duglegur að bera út í hvaða veðri sem er.

Rúna Ösp Unnsteinsdóttir var starfsmaður í Sundlauginni: Mér fannst mjög gaman að prófa að vinna í sundlauginni og var mjög ánægð.

Undirrituð, Jóhanna Ómarsdóttir fór í Dekk og Smur:
Mig langaði að prófa eitthvað allt annað en ég hef gert áður og fannst gaman að sjá hvað er verið að gera í Dekk og Smur. Þar vinna greinilega bara hörkutól en ég átti ekkert auðvelt með að rúlla inn einu kranabíladekki sem náði mér upp að öxlum. Fannst skemmtilegt að pumpa í dekk og sjá hvernig skipt er um olíu. Takk kærlega fyrir móttökurnar, það var mjög gaman að koma til ykkar og kynnast starfinu aðeins.

Hanna Jónsdóttir um fyrirmyndardaginn: Mér finnst fyrirmyndardagurinn frábært framtak, hann gefur fólki með skerta starfsgetu tækifæri til þess að kynnast nýjum störfum og eins gefur hann fyritækjum kost á að kynnast fjölbreyttu vinnuframlagi.

Fyrir hönd starfsmanna í Ásbyrgi, Jóhanna Ómarsdóttir/ Mynd: Snæbjört Sandra Gestsdóttir