Fyrirmyndardagurinn

This slideshow requires JavaScript.

Í síðustu viku stóð Vinnumálastofnum fyrir fyrirmyndadegi, sem felst í því að þá er fólki með skerta starfsgetu gefinn kostur á að prófa hin ýmsu störf og kynnast þannig ólíkum störfum í samfélaginu.  Við í Ásbyrgi tókum að sjálfsögðu þátt í þessum viðburði og nýttum okkur vel.

Tilgangurinn með þessum fyrirmyndadegi er tvíþættur: Að gefa fólki með skerta starfsgetu kost á að kynnast atvinnulífinu og að fyrirtækin kynnist fólki með ólíkan bakgrunn og reynslu.  Við erum öll ólík en öll með hæfileika, þeir eru sem betur fer á mismunandi sviðum.

Það voru 9 gestastarfsmenn frá okkur sem tóku þátt og óhætt er  að segja að allir voru rífandi kátir með sín fyrirtæki.

Þau fyrirtæki sem við leituðum eftir þátttöku hjá voru öll boðin og búin til að taka á móti gestastarfsmanni. Vinnan var frá tveim og upp í fjóra tíma.

Þetta voru fjölbreytt störf sem fólk kynnti sér, enda áhugasviðið breitt.  Fyrirtækin sem tóku þátt voru: Stundarfriður, Nesbrauð, Dvalarheimilið/þvottahús og félagsstarf, B.Sturluson, Háskólasetrið, Grunnskólinn, Akkeri og Hafnarvogin.

Allir voru gestastarfsmennirnir kátir og þakklátir fyrir góðan dag. Við enduðum svo vikuna í veitingum í Nesbrauði í boði Vinnumálastofnunnar.  Þar gerðum við upp vikuna og allir sögðu frá sinni upplifun.

Þar mátti heyra:

Frábært þar vildi ég vinna.

Ég vissi ekki að það væri svona flott rannsóknarstofa í Stykkishólmi.

Það var gaman að kynnast störfunum sem afi minn vann.

Það er mjög fallegt í skóginum.

Ég stóð mig vel í vinnunni.

Ég fékk að afgreiða.

Þetta var geggjað.

Ég væri til í að fá þessa vinnu.

Aftur á næsta ári.

Já, við áttum skemmtilega viku og sendum því bestu kveðjur og þakkir til þeirra sem tóku þátt í fyrirmyndardeginum með okkur. Það er gaman að geta sagt frá því að í framhaldi af þessum degi á síðasta ári fékk einn starfsmaður vinnusamning hjá Íslenska gámafélaginu.

Án ykkar væri Ásbyrgi ekki sá staður sem hann er í dag.