Gætið ykkar í ferðaþjónustu

Ferðaþjónustan er greinilega vaxandi þáttur í atvinnulífi Stykkishólms, en mér finnst hún sé nú að fara af stað á mjög ósmekklegan hátt og er nær óhugsandi að bæjaryfirvöld skuli leyfa þessa þróun, sem er að gerast nú í vor.  Nýjar framkvæmdir og gott framtak er lofsvert, en það skal fara fram á þann hátt að það spilli ekki einkennum bæjarfélagsins.  Bæjarbúar hafa lengi getað verið stoltir af því að gömul hefð og þjóðleg menning hefur verið varðveitt í Stykkishólmi.  Við eigum hér stórmerkileg og falleg gömul hús og ákveðinn hefðbundinn stíl, sem gefur Hólminum einstakt útlit. Bæði íslenskir og erlendir gestir eru heillaðir af gömlu bæjarmyndinni, sem vitnar um rótgróna íslenska hefð og er eitt helsta aðdráttarafl Hólmsins. En nú virðist mér sem alveg sé búið að gefa lausan tauminn í skipulagsmálum og fegurðarskyni, í von um meiri gróða.  Með nokkrum pennastrikum virðist bæjarstjórnin vera að leyfa stórslys í þróun hafnarsvæðisins, sem geta spillt hinni hefðbundnu bæjarmynd.  Ég vil nefna fjögur dæmi í þessu sambandi.

Ferðaþjónustan er greinilega vaxandi þáttur í atvinnulífi Stykkishólms, en mér finnst hún sé nú að fara af stað á mjög ósmekklegan hátt og er nær óhugsandi að bæjaryfirvöld skuli leyfa þessa þróun, sem er að gerast nú í vor.  Nýjar framkvæmdir og gott framtak er lofsvert, en það skal fara fram á þann hátt að það spilli ekki einkennum bæjarfélagsins.  Bæjarbúar hafa lengi getað verið stoltir af því að gömul hefð og þjóðleg menning hefur verið varðveitt í Stykkishólmi.  Við eigum hér stórmerkileg og falleg gömul hús og ákveðinn hefðbundinn stíl, sem gefur Hólminum einstakt útlit. Bæði íslenskir og erlendir gestir eru heillaðir af gömlu bæjarmyndinni, sem vitnar um rótgróna íslenska hefð og er eitt helsta aðdráttarafl Hólmsins. En nú virðist mér sem alveg sé búið að gefa lausan tauminn í skipulagsmálum og fegurðarskyni, í von um meiri gróða.  Með nokkrum pennastrikum virðist bæjarstjórnin vera að leyfa stórslys í þróun hafnarsvæðisins, sem geta spillt hinni hefðbundnu bæjarmynd.  Ég vil nefna fjögur dæmi í þessu sambandi. 

Verið er að reisa sjoppu fast við hlið minnisvarða látinna sjómanna við höfnina.  Er þetta virðingin sem við sýnum hinum látnu hetjum? Getið þið ímyndað ykkur sjoppu bakvið Jón Sigurðsson á Austurvelli?  Listaverkið Á heimleið eftir Grím Marinó Steindórsson á að fá að njóta sín í friði við höfnina og ekki má þrengja að því á þennan hátt.

Annað dæmi um slys er, að nú eru tvö ný fyrirtæki í ferðaþjónustu búin að velja ser útlend nöfn. Harbour Hostel  heitir auðvitað með réttu Sjávarborg og það er alveg óþarfi að skipta út góðu íslensku nafni fyrir lélegt erlent.  Erlendir gestir kjósa að dvelja í íslensku gistiheimili og eru fremur hrifnari af því að það beri hefðbundið íslensk nafn.  Nafnið Egilsenshús er prýðilegt dæmi um góðan smekk í slíku tilfelli.

Sama er að segja með nafnið Ocean Safari, á nýju gúmmíbátaútgerðinni.  Af hverju er valið enskt nafn? Það er aðeins lítið brot af hinum erlendu ferðamönnum, sem koma frá enskumælandi landi.  Kannske ætti heitið þá að vera kínverskt?  Hafa þessir menn svo lítið hugmyndaflug, eða svo litla þekkingu á breiðfirskri sjávarhefð, að þeir geti ekki fundið íslenskt nafn á útgerðina?  Reyndar finnst mér hraðskreiðir spíttbátar, sem eru keyrðir svo hratt að þeir standa næstum upp á endann, alls ekki passa inn í friðsældina á Breiðafirði. Þessi hraðumferð fælir sel og fugla, getur spillt varpi og raskar þeirri ró, sem við eigum að venjarst við ströndina.

Í fjórða lagi líkar mér ekki dreifing á mjög stórum og áberandi skiltum Sæferða víðsvegar umhverfis höfnina.  Getur hver sem er sett upp slík skilti til auglýsingar á rekstri sínum? Svo virðist vera. Alla vega hefur bæjarstjórn nú opnað þá gátt og heldur þannig áfram að spilla heildarútliti hafnarsvæðisins.

Haraldur Sigurðsson