Garðaúðun

Nú fer að líða að þeim tíma að ýmsar tegundir af pöddum og skordýrum fara að herja á trjágróður og annan gróður í görðunum. Algengustu skordýrin eru blaðlýs og lirfur, en ranabjöllur eru einnig algengar

Nú fer að líða að þeim tíma að ýmsar tegundir af pöddum og skordýrum fara að herja á trjágróður og annan gróður í görðunum. Algengustu skordýrin eru blaðlýs og lirfur, en ranabjöllur eru einnig algengar. Fjöldinn getur orðið mikill á ótrúlega stuttum tíma eða einum eða tveimur sólarhringum. Fylgjast þarf vel með plöntunum þegar þær eru að laufgast. Oft þarf að bregðast fljótt við til að óværan valdi ekki miklum skaða. Það getur tekið jafnvel nokkur ár fyrir gróðurinn að ná sér eftir alvarleg tilfelli.
    Lirfurnar eru bæði vor og haust af nokkrum tegundum (lirfur fiðrildategunda eins og vefara, feta og yglna) og valda oft miklum skaða. Blaðlýs eru um hásumarið og ef mikið er af þeim tefja þær vöxt trjánna og veruleg spjöll verða á útliti þeirra.. Gott er að hafa í huga að lýsnar eru ágætlega fleygar og ferðast á milli garða og trjátegunda.  
     
Gegn um tíðina hafa þróast margar aðferðir til að losna við óværuna, margar þeirra eru með öllu gagnlausar meðan aðrar virka ágætlega. Úðun með varnarefnum er mjög áhrifarík aðferð en það er langt frá því að alltaf þurfi að beita henni og hún hefur ekkert forvarnargildi því efnin brotna hratt niður. Það verður að vera mat garðeiganda og eða fagaðila í úðun varnarefna hverju sinni hvenær tímabært sé að úða varnarefnum til að fækka viðkomandi meindýrum. Öll meðferð varnarefna er áhættusöm bæði geymsla og notkun efnanna þannig að þegar upp er staðið er auðveldast að leita til fagaðila um úðun efnanna. Ef garðeigendur úða sjálfir varnarefnum er mjög mikilvægt að setja réttan skammt af viðkomandi varnarefni þegar blandað er á úðunartækin og hafa í huga að mikilvægt er að þvo úðunartækin vandlega ef skipt er um varnarefni.
      Það er klókt af framkvæmdaaðilanum að láta sína nánustu vita að viðkomandi sé að fara út í garð að úða því betra er heima setið en af stað farið ef  framkvæmdin snýst í andstöðu sína og úðarinn geispar golunni í stað meindýranna t.d. við að fá bráðaofnæmi eða verða fyrir stórfelldri árás geitunga. Ágætur vinur minn orðaði þetta einhvern veginn svona  ,,ef þú ætlar að vera inná  allan tímann (í leik lífsins) þarft þú að kunna leikreglurnar og fara eftir þeim”. Það er og rétt að hafa það í huga að þegar hvers konar varnar- og útrýmingarefnum er beitt er verið að taka líf hvort sem það eru skordýr, áttfætlur, spendýr, eða plöntur. Allar lífverur þjóna mikivægum tilgangi í náttúrunni og okkur ber að virða það.
      Garðaúðarar þurfa að hafa tilskilin réttindi frá Umhverfisstofnun til að mega úða varnar- og útrýmingarefnum. Ennfremur er allur búnaður og geymslur skoðunarskyldur og er yfirfarinn árlega af Vinnueftirliti ríkisins.

 

                                                                                    Trausti Tryggvason