Gerum gott betra

Þá er komið að því að þið sem lítið vitið um mig fáið nánari útlistun á mér og mínum störfum. Það má segja að ég hafi hlaupið af mér hornin í næstu sýslu, í Borgarfirðinum, þar bjó ég til 16 ára aldurs en þá lá leiðin suður í framhaldsskóla. Eftir stúdentspróf fór ég í Háskólann í sálfræðinám, kláraði  tvö ár þar og eignaðist á þeim tíma mitt fyrsta barn. Þar sem við hjónin erum bæði frekar miklir sveitamenn í okkur ákváðum við þegar þarna var komið að prófa að flytja okkur um set, úr skarkala Reykjavíkur í náttúruparadísina Stykkishólm. Enn þann dag í dag er ég sannfærð um að þessi ákvörðun var rétt, hér hefur okkur liðið vel, börnin okkar fengið að vaxa úr grasi og við sjálf að vaxa og dafna í okkar störfum. Ég fór fljótlega að vinna í skólanum þar sem áhugi minn á kennarastarfinu kviknaði, ég skellti mér í fjarnám og náði mér í réttindi sem grunnskólakennari og hef starfað við það síðan. Ég hef alla tíð haft sterkar skoðanir á því sem er að gerast í kringum mig, látið mig málin varða og af fremsta megni reynt að leysa þau verkefni sem mér hafa verið falin, þess vegna ákvað ég að takast á við þetta risaverkefni að taka sæti á lista fyrir komandi kosningar. Þó ég hafi ekki komið mikið að sveitastjórnarmálum með beinum hætti hingað til þá hef ég undanfarin átta ár starfað í nefndum á vegum bæjarins og fylgst eins náið og mér er unnt með því sem fram fer í bænum okkar. Ég er þess fullmeðvituð að ekki eru alltaf allir sammála um hvernig staðið skuli að þeim hlutum sem þarf  að framkvæma hverju sinni því tel ég mjög mikilvægt að bæjarbúar tjái sig á málefnanlegan hátt, horfi fram á við, ekki of lengi í baksýnisspegilinn heldur vinni að því að bæta það sem er og tryggja það sem verður.

Í undanförnum greinum hefur mikið verið rætt um unga fólkið, mikilvægi þess að skapa góða umgjörð og halda vel um þennan hóp til að sem flestir sjái sér hag í því að búa hér áfram. Þessu er ég mjög sammála, bæjarfélagið okkar er að yngjast og okkur er að fjölga en við megum alls ekki gleyma hinum hópnum, þeim sem plægðu fyrir okkur, eldra fólkinu og framtíð þess hér í bæ. Eins og staðan er í dag er nokkuð óljóst hvert stefnir með dvalarheimilið okkar og því mjög mikilvægt að þessi mál verði skoðuð með opnum og gangrýnum hug og fundin niðurstaða sem hentar sem flestum, helst öllum. Ég veit að þetta verður ekki létt verk en ég treysti mér í það að leggja mitt til málanna, tel mig geta starfað af heilindum fyrir bæinn okkar og með ykkar hjálp gert gott betra.

Steinunn Magnúsdóttir,
4. sæti H-listans