Morð í Maðkavík

Sólrún Inga Ólafsdóttir

„Er bókin um Óla Storm?“  Þessa spurningu fékk rithöfundurinn Róbert Marvin oftar en tvisvar þegar hann var mættur fyrir skemmstu í nýja og glæsilega Bókaverzlun Breiðafjarðar til þess að lesa upp úr nýútkominni bók sinni Umsátur. Ég og faðir minn, Flateyingurinn og Hólmarinn Óli Geir, vorum af tilviljun stödd í búðinni rétt áður en upplesturinn hófst og nutum okkar vel í áhugasömum hópi helstu menningarfrömuða bæjarins, svo sem Dagbjörtu Höskulds, Grétu Sig og Gumma Amlin. Höfundur útskýrði að hann hefði komið einu sinni í Hólminn á árshátíð, gist á Hótel Stykkishólmi og litist svo vel á bæinn að hann hefði ákveðið að nota hann sem sögusvið. Hann lofaði því að allar persónur væru skáldaðar og að hann hefði eingöngu notast við nokkur kennileiti í bænum, svo sem kirkjuna og Maðkavík.

Eftir að hafa hlýtt á fyrsta kaflann keypti ég að sjálfsögðu bókina og fékk hana áritaða af höfundi. Á bókakápunni kom fram að Umsátur væri þriðja bók Róbert Marvins og að hann hefði unnið Gaddakylfuna árið 2013.

Mig langaði helst til þess að lesa bókina strax en þar sem að ég var í miðju Móðurlífi eftir Yrsu Þöll Gylfadóttur ákvað ég að leyfa öldruðum föður mínum að lesa bókina á undan mér. Nokkrum dögum seinna hringdi ég í pabba og falaðist eftir bókinni. Enski boltinn hafði greinilega verið svolítið krefjandi síðustu daga því að pabbi var ekki búinn með bókina. Hann var samt meira en sáttur við það sem hann hafði lesið. „Bókin er æsispennandi! Ég er kominn í miðja bók og svei mér þá ef þetta minnir ekki á Stephen King. Það er smá hryllingur í þessu!“ Ég spenntist öll upp. Orðin „hryllingur“ og „Helgafellsveit“ höfðu fram að þessu aldrei verið notað saman í setningu. Ég var búin með næstu Yrsu (Gatið) þegar ég fékk loksins Umsátur í hendur með þeim orðum föður míns að endirinn hefði valdið vonbrigðum. „Eins og hann hafi ekki nennt þessu alveg í restina, eða verið að flýta sér að klára bókina.“ Leitt að heyra þetta um Stykkishólmsbókina mína, en nú var komið að mér að dæma.

Eftir þrjá kafla var ég farin að hugsa: „Yrsa hvað?“ Yrsa og Arnaldur kunna sitt fag, en Róbert Marvin er að gera annað og meira við íslensku glæpasöguna. Hrollvekjandi atburðir í anda Stephen King og Cujo virka býsna sannfærandi á Grunnasundsnesinu, þó að ég viti ekki til þess að hundaæði hafi nokkurn tímann geysað á Íslandi. Kannski eitthvað yfirnáttúrulegt í gangi líka? Atburðarásin er oft á tíðum hröð og án þess að taka klósettpásu kláraði ég allar 236 síðurnar á rétt rúmum tveimur klukkutímum. Textinn rennur vel, laus við alla tilgerð, samtöl eru sannfærandi og  mismunandi sjónarhorn, til dæmis sjónarhorn barns og hunds, gera mikið fyrir söguna. Ég verð að bæta við þetta að Beggi heitinn í Langeyjanesi sagði okkur hjónunum einu sinni að hann hefði verið á gangi fyrir ofan kirkjugarðinn í Stykkishólmi og séð einhvers konar skrímsli í hundslíki, froðufellandi og einfaldlega skelfilegt ásýndum. Beggi var jarðbundinn maður sem fabúleraði ekki, hann var í miklu uppnámi og því hefur þessi saga setið í mér lengi. Heyrði höfundur af þessari sögu líka eða er þetta tilviljun?

Stykkishólmur og nágrenni sem sögusvið er líklega helsta ástæðan þess að Hólmarar hafa sýnt bókinni áhuga. Ef ég skoða Umsátur frá því sértæka sjónarhorni er nokkuð ljóst að bókin hefði getað gerst í hvaða smábæ sem er. Stykkishólmur er ferðamannabær og geta því margir lesendur fengið tilfinningu fyrir umhverfinu af því að þeir kannast við helstu kennileiti, sem er kostur. Hólmurum mun þó finnast andrúmsloftið sem lýst er í bænum aðeins of rólegt, því að miðað við stemninguna sem ég fékk beint í æð í aðventuheimsókninni minni í Hólminn er svo sannarlega margt um að vera í bænum. Ég læt þó Óla stormi og félögum eftir að rýna í vinnubrögð Marteins héraðslögreglumanns.

Ég var á góðri leið með að gefa þessari bók 5 stjörnur og hefði svo sannarlega gert það ef hún hefði endað aðeins fyrr. Lausnin við óupplýsta mannshvarfinu var ekki nógu sannfærandi og allt of dramatísk og löggubófaleg ofan á allt annað sem á undan var gengið. En fjórar stjörnur fær Umsátur fyrir að vera spennandi, vel skrifuð og gerast í fallegasta bæ á landinu. Og jú, alveg satt, það dó maður í Maðkavík, beint fyrir framan eldhúsgluggann minn.

Sigrún Inga Ólafsdóttir