Getum við gert allt sem við viljum?

Draumur allra frambjóðenda er að geta komið allri starfsemi bæjarins í viðunandi húsnæði og helst sem glæsilegast þannig að eftir sé tekið.  Í því sambandi skiptir máli fjárhagsleg geta bæjarsjóðs. 

[mynd]Draumur allra frambjóðenda er að geta komið allri starfsemi bæjarins í viðunandi húsnæði og helst sem glæsilegast þannig að eftir sé tekið. Í því sambandi skiptir máli fjárhagsleg geta bæjarsjóðs. Það getur verið erfitt fyrir almennan kjósanda að fylgjast með hvað hægt er að gera án þess að skuldsetja bæjarsjóð of mikið, en það er líka dýrt að gera ekki neitt og halda þjónustustigi niðri.
Við slíkar aðstæður verður að forgangsraða og met ég það þannig að skuldsetning má ekki aukast mikið næsta kjörtímabil. 
      Það fyrsta sem við eigum að gera er að klára Leikskólann og jafnframt að koma Grunnskólanum á einn stað.  Við þá færslu sparast í rekstri og ef hægt er að leysa það mál á ódýran en fullnægjandi hátt höfum við meira svigrúm til að greiða niður skuldir og/eða framkvæma meira. Einnig er brýnt að Bókasafnið fái farsæla lendingu og verðum við að gera allt sem við getum til að svo geti orðið. Við hjá L-listanum viljum ná betri nýtingu á það húsnæði sem þegar er til í eigu bæjarins, þó aldrei verði komist hjá nýbyggingum.
      Loforð um byggingu undir þetta og hitt verður að skoða í því ljósi að hver bygging kostar um kr. 140 – 200 þús. á fermetra.  Það má því gera ráð fyrir að hver bygging kosti frá 100 – 200 milljónir.  Miðað við aðstæður í dag er ekki svigrúm fyrir meira en eina til tvær slíkar byggingar og verðum við því að finna ódýrari leiðir til hagræðingar og aukinnar þjónustu við bæjarbúa.
      Hlutverk sveitarstjórnarmanna er að þjóna íbúum sem best og gæta jafnræðis. Við komumst ekki hjá því að vera tengd ákveðnum vinnustöðum og verðum að taka tillit til þess við afgreiðslu mála. Ýmsar samsæriskenningar eru um að einstaka bæjarfulltrúar vinni betur fyrir þennan en hinn. Það kemur fyrir að við verðum vanhæf vegna tengsla við vinnustað og er það á ábyrgð allra bæjarfulltrúa að fylgjast með því.  Ég veit ekki um eitt einasta mál þar sem þessa hefur ekki verið gætt og hafa allir bæjarfulltrúar staðið vörð um slíka hagsmunaárekstra.  Það er öllum fyrir bestu að keppa á jafnréttisgrundvelli og vinna að málum á eigin verðleikum, þannig dafnar starfsemi þeirra best.

                                                                                             Davíð Sveinsson, bæjarfulltrúi
                                                                                            3. sæti á L-lista