Grillaður kjúklingur í sesamkryddlegi með maíssalati og skyr-myntusósu

Þar sem sumardagurinn fyrsti er á morgun og grillvertíðin að byrja á fullu býð ég ykkur upp á eina af mínum uppáhalds grilluppskriftum.

Grillaður kjúklingur í sesamkryddlegi með maíssalati og skyr-myntusósu
800 gr. Kjúklingur
Kryddlögur:
½ dl. Sesamolía
1 dl. Sojasósa
3 msk. Gróft sinnep
1 dl. Balsamedik
½ dl. Hunang
2 ½ dl. Olía

Setja allt nema olíu í matvinnsluvél og blandið vel saman, hellið olíu í mjórri bunu og látið vélina ganga á meðan.

Penslið kjúkling með kryddleginum og þræðið hann upp á grillspjót, grillið á vel heitu grilli. Látið hvíla á efri grindinni smá tíma og penslið með kryddleginum.

Maíssalat
3 maísstönglar grillaðir
½-1 rauðlaukur saxaður
2 chili söxuð
1 dl. límónusafi
Hnefafylli af kóríander söxuðu
1 dl. olía
Salt og pipar.

Skerið maísinn af stönglunum og blandið vel saman, Saltið og piprið

Skyr-myntusósa
100 g. skyr
100 g majónes
¼ dl. hunang
1 msk. límónusafi
Mynta fersk eftir smekk
Salt og pipar.

Öllu blandað saman í matvinnsluvél, bragðbætt með salti og pipar

Verði ykkur að góðu.

Ég hef heyrt að Hrafnkell Thorlacius sé listakokkur og skora á hann að koma með næstu uppskrift.

Guðlaug Ágústsdóttir