Guð blessi Ísland – og rest

american-flagÞað var ógnvænlegt að vakna morguninn 9. nóvember, líta á símann og sjá að auðjöfurinn og ólíkindatólið Trump hafi verið kjörinn forseti Bandaríkjanna. Þegar Rás 2 staðfesti svo þessar fregnir yfir hafragrautnum olli það ógleði og vanlíðan. Bandaríkin eru í dag orðin að teiknimyndaútgáfunni af sjálfum sér.

Ég hafði hummað það af mér að milljóna þjóð gæti virkilega kosið frambjóðanda sem væri jafn óforskammaður. Mér þótti það fráleitt að nokkur leið væri fyrir mann sem hafði lagt til að fangelsa mótframbjóðanda sinn sem sitt fyrsta verk í embætti gæti orðið valdamesti maður heims.

Þetta eru skilaboð til stjórnmálakerfisins í Bandaríkjunum. Kjósendur eru langþreyttir á baktjaldamakki, rýnihópum og fjarlægðinni frá valdinu. En þú skiptir ekki fótbrotnum inn á völlinn fyrir slasaðan.

Rasísk kvenhatursummæli og fjöldinn allur af konum sem stigu fram og opnuðu sig um kynferðislegt ofbeldi auðjöfursins virðast engu máli skipta. Hillary er nefnilega hluti af kerfinu og það viljum við ekki sjá.

Í sigurræðu sinni var verðandi forseti rólegur og talaði um sameiningu. Hann þakkaði Hillary fyrir sterka og erfiða baráttu og hann boðaði mikinn stöðugleika. Þetta var alveg fyrirséð. Hann kemst til valda með látum og til að sefa milljónirnar sem ekki kusu hann er hann rólegur. En fólkið á bakvið atkvæði hans breytir ekki svo glatt um skoðun. Þetta eru kjósendur sem vilja meina múslimum að komast til landsins, kjósendur sem vilja byggja vegg við landamæri Mexíkó, kjósendur sem kusu raunveruleikaþáttastjórnanda sem hefur alið á hatri gegn minnihlutahópum til þess að fara með stjórn landsins. Stjórn sem bergmálar yfir allan heiminn.

Eftir Brexit kosninguna í sumar varð mælanlegur munur á árásum og aðkasti gegn innflytjendum í Bretlandi. Kynþáttahatarar og vitleysingjar höfðu nú kosningaúrslit til að réttlæta vitleysuna í sjálfum sér, af einhverjum ástæðum. Í dag er einungis hægt að ímynda sér hversu langt stökk afturábak mannréttindabarátta í Bandaríkjunum tekur með þessu. Því allt sem Bretinn gerir skal Kaninn gera stærra, betra, hraðar og fastar.

Það er margt sem stendur upp úr á meðan markaðir hrynja vegna úrslitanna. Eitt þeirra hlýtur að vera það að margir kjósendur, jafnvel tugþúsundir, kusu ekki Hillary Clinton einungis vegna þess að hún er kona.

En svona er lýðræðið, maður getur verið ósammála en allir fá sitt að segja. Í lýðræðisríkjum fá kjósendur þá stjórn sem þeir eiga skilið.

Gísli Sveinn Gretarsson