Guð blessi ríkisstjórnina – aftur

Mikið var Sigga ánægð með að vera komin í umhyggjuna og félagsskapinn á dvalarheimilinu. Þetta var allt annað líf og öryggi. Allir svo yndislegir. Gott ef það jók bara ekki á vellíðanina að greiða 55.272,- krónur á mánuði, minna gat það varla verið. Sigga taldi best úr því sem komið væri að selja hesthúsin sem hún átti og leigði Sveini. Hestana var hún búin að selja fyrir löngu. Sveinn vildi kaupa af henni húsin fyrir 11 milljónir. Að bestra manna mati var það ekki ósanngjarnt verð. Sigga hafði keypt húsin árið 2001 fyrir 5 milljónir og að vísu hafði Nonni heitinn, blessuð sé minning hans, gert heilmikið fyrir húsin og þau kostað miklu til, en hvað hafði hún sosum með hesthús að gera komin í hjúkrunarrými. Svo Sigga seldi Sveini hesthúsin. Pétur fasteignasali rukkaði bara 165.000 í sölulaun, sem er bara sanngjarnt fannst Siggu því pappírarnir þurfa að vera í lagi.
Gunna systir sagði Siggu að hún hefði betur hugsað þetta alveg til enda. Gunna er svo mikill kerfisfræðingur, hún er allt að því sérfræðingur í kerfi hins opinbera. Gunna sagði við Siggu : „ Þú keyptir á 5milljónir, selur á 11milljónir og greiðir 165þúsund í sölulaun þú þarft þá Sigga mín að greiða 22% fjármagnstekjur af 5.835.000,- króna söluhagnaðinum, það gera 1.283.700,-kr, þá eru eftir 4.551.300,- kr sem teljast til tekna eftir skatt. Það gera 379.275,- kr á mánuði til viðbótar við 147þúsundin sem þú hefur í lífeyristekjur eftir skatt, því þarftu elsku systir að greiða til dvalarheimilisins allt sem er umfram 92.228,-kr á mánuði upp að 501.408,- kr. Það gera 409.180,- krónur á mánuði, sem er 353.908,- kr meira en þú greiðir núna eða 4.246.896,-kr meira á árinu vegna söluhagnaðar af hesthúsinu“.
Sigga skilur þetta ekki en þeir hljóta að vita hvað þeir eru að gera mennirnir fyrir sunnan. Ef hún á að greiða ríkinu 5.530.596,-kr, eða 95%, af þeim tæpu 6 milljónum sem þeir fyrir sunnan segja að hún hafi grætt á sölunni, hlýtur það að vera rétt. Hvað veit hún sosum um verðtryggingu og þann kostnað sem þau Nonni heitinn settu í endurbyggingu á hesthúsinu og auðvitað er henni gamalli kellingu í hjúkrunarrými ekki hollt að eiga of mikið af aurum. Hér er séð fyrir flestum hennar þörfum, hvað ætti hún sosum að gera við þetta, ekki færi hún að eyða þessu í tásnyrtingu og hárgreiðslu? Gunna systir talaði líka eitthvað um fjármagnstekjur og fjármagnsskatt af þessum 11milljónum í 1 ár því Sigga þyrfti ekki að borga fyrr en á næsta ári þegar framtali væri skilað. Og svo ætti Sigga enn þá 5milljónir þegar hún væri búin að borga. Ef hún léti krakkana hafa það sem fyrirfram greiddan arf þá þyrftu þau að greiða 10% af því í erfðafjárskatt. Gunna var með alls konar tillögur um hvernig Sigga hefði átt að fara að, en Sigga hlustaði hvorki né man hvað hún sagði, enda vill Sigga gjalda keisarnum það sem keisarans er og alls ekki snuða samfélagið og allra síst þá sem ekkert eiga. Þeir vita þetta betur fyrir sunnan og kunna miklu betur að fara með þessa peninga. Það er ekki nema sanngjarnt að hún sem hefur stritað allt sitt líf , sýnt ráðdeild og fyrirhyggju og verið svo lánsöm að eignast smá aur láti þá glöð af hendi.
Sigga ætlar í kvöld eins og önnur kvöld að biðja fyrir ríkisstjórninni og sérstaklega að þau noti þessa fjármuni rétt og vel.
Sagan er kaldhæðin skáldskapur en útreikningar byggðir á gögnum frá Tryggingastofnun og ríkisskattstjóra. Söluhagnaður eigna s.s. sumarhúss eða hesthúss er mismunur kaupverðs og söluverðs að frádregnum sölukostnaði (ef eign er keypt 2001 eða síðar eru engar verðbætur). Söluhagnaður er fjármagnstekjur sem bera 22% skatt. Þessi söluhagnaður eftir skatt er reiknaður sem tekjur í útreikningum Tryggingastofnunar. Sölulaun í þessari sögu er skálduð tala.

Gretar D. Pálsson