Gull og silfur á Snæfellsnesið

Laugardaginn 12. maí s.l. var Vesturlandsmót í Boccia fyrir 60+ haldið í Grundarfirði. Þangað sendum við félagar úr Aftanskin fjögur lið, hvert öðru betra, sem stóðu sig öll með sóma.

Vesturlandsmótin eru haldin ár hvert. Árið 2019 verður mótið haldið á Akranesi, og árið 2020 er röðin komin að okkur félögum í Aftanskin að halda mótið.

Á þessum mótum, sem eru orðin allmörg, hafa Akurnesingar og Borgfirðingar nánast unnið þau öll. En þau gleðilegu tíðindi gerðust á mótinu í Grundarfirði að lið þeirra Guðrúnar Ákadóttur, Karólínu Ingólfsdóttur og Árnýjar Guðmundsdóttur sigraði sveit úr Borgarfirðinum í fjórðungs-úrslitum og léku þær síðan til úrslita við félaga okkar úr Snæfellsbæ. Þar reyndust útnesjamenn sterkari og unnu þeir með einu stigi. Þarna var brotið blað í sögu Vesturlandsmóta í Boccia fyrir 60+, gull og silfur á Snæfellsnesið.

Ég hef oft séð þær vinkonur spila vel en á móti Borgfirðingum spiluðu þær upp á 10. Glæsilegt og til hamingju aftur.

Nú erum við komin í sumarfrí og byrjum aftur næsta haust. Það er pláss fyrir að vera með, komið og kynnið ykkur Boccia tæknina, við tökum vel á móti ykkur.

Að lokum við ég þakka félögum okkar í Grundarfirði fyrir góðar móttökur og góðar veitingar, það var vel að þessu móti staðið með Flemming í broddi fylkingar.

Með Bocciakveðjum til allra