Miðvikudagur , 23. janúar 2019

Hægeldað lambalæri með þistilhjörtum og parmesan osti

Hjálmar Sigurþórsson

 

Þakka gleðigjafanum Hafþóri frænda, vini og veiðifélaga fyrir áskorunina en það er nú ekki slæmt að geta leitað í hans smiðjur þegar maður vill gera vel við sig í mat og ég tala nú ekki um drykk.  En hér kemur góð uppskrift:

Hægeldað lambalæri með þistilhjörtum og parmesan osti

Þessi samsetning á hráefni er ekki alveg augljós en hefur verið í miklu uppáhaldi á mínu heimili lengi.  Þessi uppskrift er sáraeinföld en að sama skapi ótrúlega ljúffeng.

  • En hér eru helstu atriði:
  • 1,5 kg lambalæri eða annar góður biti
  • 30 gr fersk myntulauf
  • 60 gr parmesan ostur skorinn í grófar sneiðar
  • 180 gr þistilhjörtu marineruð í olíu (er til í krukkum í flestum búðum)
  • 2 hvítlauksrif gróft skorin
  • 2 bollar þurrt hvítvín
  • 1 ¼ bolli vatn
  • Salt og svartur pipar

Lærið er kryddað með salti og pipar og sett í steikarpott (svartann steikarpott með loki), því næst vökvinn settur í pottinn og að lokum öllu öðru dreift yfir lærið og í pottinn allt um kring.  Ofninn hitaður í 150° og er lærið látið eldast í allt að 4 klst.  Berið fram með kartöflum að eigin vali, steiktum aspas og góðu brauði sem dýft er í safann sem verður til í pottinum en safinn kemur í stað hefðbundinnar sósu.

Næsta fórnarlamb er gamall hljómsveitarfélagi og vinur Jonni Ísleifs sem ég ætla að skora á að koma með næstu uppskrift.

Takk fyrir mig, Hjálmar Sigurþórsson