Hagnaður ár eftir ár í stað hallareksturs bæjarsjóðs

Bæjarfulltrúar L-listans eru enn við sama heygarðshornið þegar þeir skrifa gegn framkvæmdum og fjárfestingu  á vegum Stykkishólmsbæjar og birta í bæjarblaðinu skömmu fyrir jól.

Allt yfirstandandi kjörtímabil hefur minnihlutinn  talað gegn metnaðarfullum en raunsæjum  fjárhagsáætlunum sem byggjast á þeirri ágætu fjárhagsstöðu sem tekist hefur að byggja upp hjá Stykkishólmsbæ á yfirstandandi kjörtímabili.

Ákvarðanir bæjarfulltrúa H-listans og fjármálastjórn okkar hefur skapað lánstraust sem ekki var til staðar í upphafi þessa kjörtímabils þegar EFTIRLITSNEFND MEÐ FJÁRMÁLUM SVEITARFÉLAGA sá sig knúna til þess að gera athugasemdir vegna þess að bæjarsjóður hafði verið rekinn með halla árum saman.

Tekjuafgangur bæjarsjóðs og lánin sem tekin hafa verið á þessu kjörtímabili eru ekki til þess að jafna halla heldur til þess að kosta ný byggingarsvæði fyrir íbúðahús og atvinnuhúsnæði, endurbyggja gatnakerfið, endurnýja gangstéttar, leggja gangstíga, hanna nýjar útrásir Fráveitunnar, stækka Leikskólann og byggja yfir  Amtsbókasafnið og skólabókasafnið og bæta þannig aðstöðuna í Grunnskólanum svo stærstu verkefnin séu nefnd.

Tekist hefur, þrátt fyrir verulegar auknar framkvæmdir og fjárfestingu, að lækka skuldahlutfallið frá árinu 2013  og fara að lagareglum um fjármál sveitarfélaga. Fjármálastjórnin á síðasta kjörtímabili leiddi til þess að EFTIRLITSNEFND  um fjármál sveitarfélaga setti bæjarstjórn skorður með bréfi dagsettu 28. ágúst árið 2014 eftir að L-listinn hafði stjórnað eitt kjörtímabil. Samkvæmt yfirliti í ársreikningi bæjarsjóðs 2016 er skuldahlutfallið svo sem hér segir:

Skuldahlutfall árið 2012 var 159% – 2013 var það 162%, árið 2014 var hlutfallið  144%, árið 2015 137% og árið  2016 var skuldahlutfallið 128%.  Skuldahlutfallið er áætlað 137% árið 2017 og í áætlun fyrir árið 2018 lækkar skuldahlutfallið  í 130%.

Lánin sem tekin voru 2017 fyrir bæjarsjóð bera lága vexti sem skiptir miklu máli og sýnir það lánstraustið sem bærinn hefur. Þá má geta þess að ríkissjóður hefur yfirtekið lífeyrisskuldbindingar vegna starfsemi  Dvalarheimilis aldraðra samkvæmt sérstökum samningi sem var undirritaður síðla árs 2017.

Þá er vert að vekja sérstaka athygli á því að afkoma bæjarsjóðs hefur ekki verið neikvæð á þessu kjörtímabili.

Samanlagður rekstrarhalli bæjarsjóðs fyrir utan Dvalarheimilið árin 2010-2011-2012 og 2013 var 135 milljónir króna.

Árin 2014 til ársins 2017 var verulegur afgangur af rekstri bæjarsjóðs öll árin  og áætlaður rekstrarafgangur ársins 2018 eru 71 milljón króna.

Þessar tölur rifjaði ég upp á bæjarstjórnarfundi fyrir jólin og geri hér aftur vegna þess, að reynt er að koma inn ranghugmyndum hjá bæjarbúum, um stöðu bæjarsjóðs og stjórnun okkar sem berum ábyrgð á því að hagur okkar Hólmara hefur vænkast mikið og íbúum hefur fjölgað.

Þessar tölur sýna að við erum á réttri leið. Ég hvet til þess að bæjarfulltrúar fagni uppbyggingunni  í stað þess að skapa tortryggni svo sem talsmenn L-listans gera með neikvæðum bókunum í bæjarstjórn og greinarskrifum þar sem lagst er gegn framkvæmdum og uppbyggingu.

Ég sendi bæjarbúum góðar kveðjur með ósk um farsælt nýtt ár.

Sturla Böðvarssson bæjarstjóri