Hefur veðurfar áhrif á hreiðurfjölda?

Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Snæfellsnesi birti nýlega grein í vísindaritinu Plos One um stofnvistfræði æðarfugls.  Höfundar greinarinnar eru Jón Einar Jónsson, Arnþór Garðarsson, Jennifer A. Gill, Una Krístín Pétursdóttir, Ævar Petersen og Tómas Grétar Gunnarsson.  Í fréttatilkynningu frá Háskólasetrinu kemur fram að í greininni voru skoðuð tengsl milli fjölda hreiðra í æðarvörpum og veðurfars á Íslandi m.t.t. yfirstandandi loftslagsbreytinga. Haft var samband við æðarbændur (jarðir) um land allt, sem töldu sjálfir hreiðrin, sumir kynslóð fram af kynslóð. Að endingu söfnuðust hreiðurtölur frá 40 aðilum. Hægt var að rekja þróun stofnstærðar sl. 30 ár eða lengur í 18 æðarvörpum og voru þau til grundvallar greininni í Plos One. Mikill breytileiki var milli ára og æðarvarpa og almennt var lítil fylgni milli árlegra breytinga í fjölda hreiðra, þ.e. breytingar í stofnstærð milli ára voru fyrst og fremst háðar aðstæðum á hverjum stað.

Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Snæfellsnesi birti nýlega grein í vísindaritinu Plos One um stofnvistfræði æðarfugls.  Höfundar greinarinnar eru Jón Einar Jónsson, Arnþór Garðarsson, Jennifer A. Gill, Una Krístín Pétursdóttir, Ævar Petersen og Tómas Grétar Gunnarsson.  Í fréttatilkynningu frá Háskólasetrinu kemur fram að í greininni voru skoðuð tengsl milli fjölda hreiðra í æðarvörpum og veðurfars á Íslandi m.t.t. yfirstandandi loftslagsbreytinga. Haft var samband við æðarbændur (jarðir) um land allt, sem töldu sjálfir hreiðrin, sumir kynslóð fram af kynslóð. Að endingu söfnuðust hreiðurtölur frá 40 aðilum. Hægt var að rekja þróun stofnstærðar sl. 30 ár eða lengur í 18 æðarvörpum og voru þau til grundvallar greininni í Plos One. Mikill breytileiki var milli ára og æðarvarpa og almennt var lítil fylgni milli árlegra breytinga í fjölda hreiðra, þ.e. breytingar í stofnstærð milli ára voru fyrst og fremst háðar aðstæðum á hverjum stað.

Stofnstærð og þær veðurbreytur sem hafa áhrif á hana voru nokkuð mismunandi milli æðarvarpa, eru sennilega tengdar veðrabrigðum og samspili þeirra við landafræðilegar aðstæður hlynningu varpsins  á hverjum stað. Marktækt  samband fannst milli sumarveðurs og fjölda hreiðra 2-3 árum seinna í þremur æðarvörpum, þetta bendir til áhrifa veðurs á afkomu unga og þar með nýliðun 2-3 árum seinna (æður verður kynþroska 2-3 ára). Þetta samband byggir á að æðarfuglar verpa 2-3 ára í fyrsta sinn og að nýliðun skipti máli fyrir stofnstærð í viðkomandi æðarvarpi – en sum æðarvörp eru e.t.v byggð upp af eldri og reyndari kollum með háar lífslíkur og þá skiptir nýliðun tiltölulega minna máli. Í æðarvörpum sem eru tiltölulega háð nýliðun getur sumarveðrið 2-3 árum fyrr skipt talsverðu máli.

Veðuráhrif á æður á Íslandi virtust mest bundin við ýkt ár (s.s. frostaveturinn 1918, hafísárið 1969 eða kuldavorið 1979), þó svo að syrpa af mildum vetrum upp úr 1980 hafi einmitt hist á við aukningu í æðarvörpum um allt land. Loftslagsbreytingar geta haft áhrif á æðarstofninn en þau hrif verða háð því hvernig veðrið á Íslandi bregst við áframhaldandi breytingum. Verði loftslagsbreytingar á þann veg að vetur á Íslandi verði umhleypingarsamari en nú er er t.d. að vænta neikvæðra áhrifa miðað við þessar og eldri niðurstöður frá 2009, sem birtust í Climate Research. 

Hreiðrum æðarfugls fjölgaði um 85% 1977-1990, en fækkaði til baka um 17% 1991-2000. Frá og með 2001 til 2007 eru til hreiðurtölur fyrir alls 40 æðarvörp, og fækkaði hreiðrunum á landsvísu um tæp 20% á þeim tíma (miðað við 1977 sem 100%). Þó var fjöldi æðarhreiðra 2007 rúmlega 44% meiri en þau voru árið 1977, áður en fjölgunin hófst. Stöðugleikinn var mestur í Vestureyjunum á Breiðafirði, þar sem aukinn fjöldi hreiðra frá 8. Áratugnum hélst að mestu til 2007. Hlýskeið hófst í veðurfari 1995, um sama leyti og fjölgunin stöðvaðist eða byrjaði að ganga til baka og er það rannsóknarefni að skýra hvers vegna þessir atburðir gerðust samtímis.

Segja má að verkefnið hafi talið æðarfugl aftur í tímann. Hins vegar er það markmið okkar að mega halda áfram þessari gagnasöfnun og uppfæra stöðuna eftir því sem árin líða til að gæta að þessari mikilvægu tegund.  Atburðir á næstu árum munu aðeins leiða til þekkingar sé haldið áfram að fylgjast með þróun æðarvarpa, og tengja svo þær upplýsingar við breytingar á veðurfari og talningar á ungum, sem hófust 2007 og talningum á kynja- og aldurshlutföllum, sem hófust 2010. Auk þess væri æskilegt að mæla fæðu æðarfugls samtaka þessari talningu á hreiðrum, sem er okkar besta tæki til að fylgjast með stofnstærð æðarfugls. Í vetur verður kláruð skýrsla á íslensku, sem verður miðlað til þeirra æðarbænda er þátt tóku í verkefninu.

Linkurinn á greinina

Heimasíða Rannsóknasetursins

Jón Einar Jónsson

Forstöðumaður, Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Snæfellsnesi.