Heilir og sælir ágætu lesendur

Hluti starfsmanna Ásbyrgis
Hluti starfsmanna Ásbyrgis

Um áramót er gamall og góður siður að líta um öxl og vega og meta það sem liðið er sér til gagns.

Við í Ásbyrgi höfum átt viðburðaríkt ár sem hefur einkennst að mikilli orku og krafti. Við höfum haft næg verkefni og það er ég svo sannalega þakklát fyrir það eru jú bæjarbúar sem standa við bakið á okkur með verkefni og varning til að vinna úr. Betra samfélag fyrir vinnustað sem þennan er vart hægt að hugsa sér. Við erum hreinlega að sprengja utan af okkur húsnæðið bæði vegna starfsmanna og efniviðar.

Markmið okkar er að allir vinni á almennum vinnumarkaði hluta úr degi eða hluta úr viku, fylli síðan daginn í Ásbyrgi. Þar er markmiðið að búa til söluvarning sem við seljum svo á vægu verði. Já sjón er söguríkari hjá okkur er ýmislegt til, bæði gagnlegt og flott. Ódýrar gjafir sem eru unnar af mikilum kærleika og gleði. Alltaf eru að fæðast nýjar hugmyndir það er svo skemmtilegt.

Við höfum verið dugleg að sækja námskeið bæði hjá Símenntun og eins höfum við staðið fyrir námskeiðum sjálf.   Þar má nefna textílmennt, blaðamennsku, leiklist, matreiðslu og fuglahúsagerð. Fórum og skoðuðum tvo vinnustaði fyrir fólk með skerta starfsgetu, það er Smiðjuna í Ólafsvík og Ölduna í Borganesi. Tókum þátt í fyrirmyndadeginum og mundum örugglega gera aftur.

Héldum þrjá markaði á síðasta ári, fórum á tónfundi, héldum jólagleði og skelltum okkur út að borða.

Já við höfum nýtt okkur gleðina til góðra verka og munum áfram stefna að því að njóta og læra.

Áfram höfum við endurnýtingu í hávegum.

Tökum á móti, áldósum, kertaafgöngum, sprittkertadósum, glerkrukkum með og án loks. Garnafgöngum, efnisbútum, gömlum fötum, öllu líni.

Litum og föndurvörum af öllum tegundum.

Myndarömmum og bara öllu hugsanlegu.

Það sem við notum ekki komum við áfram þar sem það nýtist.

Minnum á að skila umslögum með frímerkjum á til okkar. Gleraugu sem hafa lokið sínu hlutverki hjá ykkur komum við til þekkingar- og þjónustumiðstöðvar blindra og sjónskertra.

Já, hugsum áður en við hendum. Setjum markmiðið hátt og verðum duglegri við að flokka.

Áramótaheit starfsmanna í Ásbyrgi er að hafa gaman að lífinu læra og njóta.

Með kveðju og von um áframhaldandi gott samstarf.

Hanna Jónsdóttir starfsmaður í Ásbyrgi.