Heimagistingar?

Vegna fréttar með titilinn ,,Heimagistingar í Hólminum“ í síðasta blaði Stykkishólms-Póstsins vil ég vekja athygli á því að það eru engar 27 heimagistingar í Stykkishólmi eins og ágætur fulltrúi blaðsins heldur fram og vitnar í Airbnb. En þarna kemur glögglega fram sá vandi okkar sem að rekum heimagistingar að þorri fólks sem að blandar sér í umræðu um heimagistingar virðist bara ekkert vita hvað heimagisting er. Sko… Heimagisting er gistiþjónusta þar sem heimiliseigandi selur gistingu inni á heimili sínu þar sem hann sjálfur býr, ekki annarsstaðar. Málið er nú ekkert flóknara en það. Gisting seld annarsstaðar svo sem í aukahúsum er ekki heimagisting hvað svo sem nýleg lög kunna að rugla um það. Frelsarinn fæddist t.d. ekki í heimagistingu heldur í aukahúsi sem að ekki var heimili gistisala. En sennilega hafa heimagistingar verið að mestu alsráðandi á gistimarkaðnum á þeim tíma. Aðrar skilgreiningar eru einfaldlega rangar…. jafnvel þó í lögum kunni að leynast. Heimagisting er gamalt aðþjóðlegt fyrirbrigði sem að gengur út á að gistikaupandinn kaupir gistingu inni á heimili gistisala svo að það sé nú endurtekið. Hvað eru margar heimagistingar í Stykkishólmi? Ég veit það eitt að þær eru ekki 27 og að sprengingin í bransanum er ekki í fjölda heimagistinga. Ég veit um eina gistingu í Stykkishólmi sem að er alvöru heimagisting og kannski eina til viðbótar. Þær kunna að vera fleiri en ég veit ekki um fleiri þar sem að boðið er upp á það sem að gerir heimagistingu að heimagistingu. Gisting í allrahanda húsum er allt annað mál sem hefur ekkert með heimagistingar að gera. Það að hús þar sem að seld er gisting hafi einhvern tíma verið heimili gerir það ekki að heimagistingu. Heldur ekki aukahús eins og talað er um í lögunum sem að varpar svo ljósi á að þessi lög eru í raun ekkert um heimgistingar. Þau eru um fyrirbrigði sem ég kalla húsasafnara en það er efni í annan pistil og hann langan. Sem sagt og nú í þriðja skipti eða fjórða: Ef að gistingin er ekki inni á heimili gistisala að þá er þetta ekki heimagisting heldur eitthvað annað. Læt ég þetta duga að sinni þó að ég gæti hæglega tekið allt blaðið undir grein um þetta efni.

Heimir Laxdal Jóhannsson

Athugasemd fréttaritara:

Rétt er hjá Heimi að heimagisting er gistiþjónusta þar sem gisting er seld inn á heimili gistisala. Samkvæmt nýju löggjöfinni nær flokkur heimagistingar til „einstaklinga sem hyggjast leigja út lögheimili sitt og/eða eina aðra fasteign í sinni eigu sem viðkomandi nýtir persónulega.” Réttast hefði verið að segja í fréttinni sem um ræðir að 27 auglýsingar fyrir gistiaðstöðu megi finna á síðu Airbnb. Beðist er velvirðingar á misskilningnum.