Héraðsþing HSH

68. Héraðsþing Héraðssambands Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu – HSH, var haldið í félagsheimilinu Klifi í Snæfellsbæ sl. laugardag.

Gestir þingsins voru Sigríður Finsen formaður Héraðsnefndar Snæfellinga, Helga Guðrún Guðjónsdóttir varaformaður UMFÍ, Stefán Konráðsson framkvæmdastjóri ÍSÍ og Sigurður Gíslason Íþrótta- og æskulýðsfulltrúi Snæfellsbæjar.

 

Um þrjátíu manns mættu á þingið sem var starfssamt og málefnalegt og ljóst að mikið líf er í íþróttastarfinu á Snæfellsnesi.  Góðar umræður áttu sér stað í nefndarstörfum þingsins og meðal þess sem mest var rætt á þinginu var umsókn um unglingalandsmót sem haldið yrði í Grundarfirði og Snæfellsbæ. Einnig voru lög HSH yfirfarin.

 

Á þinginu voru veitt tvö starfsmerki UMFÍ til Maríu Ölmu Valdimarsdóttur Snæfelli og Sigrúnu Ólafsdóttur Víkingi.

 

Íþróttamenn HSH 2005 veittu viðurkenningum sínum viðtökur og eru þeir eftirfarnandi;

Frjálsíþróttamaður: Heiðar Geirmundsson UMFG

Hestamaður: Lárus Ástmar Hannesson Snæfelling

Íþróttamaður fatlaðra: Jón Oddur Halldórsson Reyni

Kylfingur: Hannes Marinó Ellertsson Jökli

Knattspyrnumaður: Einar Hjörleifsson Víking

Körfuknattleiksmaður: Sigurður Ágúst Þorvaldsson Snæfelli

Sundmaður: Fadel A. Fadel Víking

 

Íþróttamaður HSH 2005 er Jón Oddur Halldórsson Ungmennafélaginu Reyni Hellissandi.

 

Vinnuþjarksbikarinn er verðlaunagripur sem UMFÍ gaf HSH á 80 ára afmæli HSH (2002). 

Bikarinn er í fyrsta skipti afhentur á 68. Héraðsþingi HSH fyrir starfsárið 2005.  Bikar þessi er farandbikar sem táknar hvatningu og þakklæti sambandsins til einstaklinga sem hafa skarað fram úr í uppbyggingu íþróttagreinar og/eða félagsstörfum hverskonar á sambandssvæðinu og er hann veittur til eins árs í senn.  Sá sem hlýtur fyrstur útnefninguna “Vinnuþjarkur HSH” er Viðar Gylfason UMF. Reyni Hellissandi fyrir uppbyggingu á Krakkablaksstarfi í Snæfellsbæ.  Þessi dugnaðarforkur hefur nú þegar komið upp nýrri íþróttagrein á Snæfellsnesið ásamt því að halda eitt stykki Íslandsmót í krakkablaki, en að sjálfsögðu eins og góðum stjórnanda sæmir hefur Viðar gott fólk í kringum sig sem aðstoðar hann eftir fremsta megni.

 

Á þinginu var gefin út ársskýrsla sambandsins sem inniheldur upplýsingar um starf innan sambandsins og aðildarfélaga þess á liðnu ári.

 

Guðmundur M. Sigurðsson gaf ekki kost á sér til formannsstarfa á þinginu vegna anna.   Varaformaður HSH, Garðar Svansson, tók við formennskustarfinu í janúar sl. og var kjörinn formaður HSH á þinginu.  Í lok þings var kosin 5 manna stjórn HSH og skipað í 8 ráð.

 

Stjórn HSH 2006-2007 skipa Garðar Svansson formaður, Eygló Bára Jónsdóttir varaformaður, Hjörleifur Kristinn Hjörleifsson gjaldkeri, Fríða Sveinsdóttir ritari og Freyr Jónsson meðstjórnandi.