Himnesk eplakaka

Mig langar til að þakka Þórey vinkonu fyrir áskorunina en það er ekki á hverjum degi sem leitað er til mín vegna kökuuppskriftar og hvað þá af Þórey kökugerðarsnillingi! en ég luma á einni hrikalega góðri köku og ekki er verra að hún er í “hollari” kantinum, ef hægt er að segja að kökur séu hollar. Ég hef alltaf gert tvöfalda uppskrift, það dugar ekkert minna.
Himnesk eplakaka
2 stór rauð epli 
¾ bolli gróft spelt
¾ bolli muscovado púðursykur (eða venjulegur púðursykur)
¾ bolli tröllahafrar
½ tsk. salt
¾ tsk. kanill
½ bolli mjúkt smjör (við stofuhita)
Blandið þurrefnunum saman. Passið að ná öllum púðursykurskekkjunum úr. Blandið síðan mjúku smjöri saman við þurrefnin með fingrunum, frekar klístrað en skemmtilegt. Setjið hluta af deiginu í botninn á meðalstóru eldföstu móti án þess að þjappa. Afhýðið eplin og skerið í þunna báta og látið ofan á deigið. Gott er að setja hrásykur á eplin. Þekið svo eplin með restinni af deiginu. Bakið í 40 mínútur við 175° hita. Gott er að bera eplaköku fram með þeyttum rjóma. 
Mig langar til að skora á Kristínu systur mína sem ég veit að er uppfull af hugmyndum þegar kemur að því að reiða fram kræsingar og auðvitað Sigga Sigurþórs set hann hérna inn líka af því að hann er svo mikill hólmari og les alltaf Stykkishólmspóstinn en hann hefur örugglega aldrei komið í kökuhorninu. Erla Ósk Ásgeirsdóttir