Hólmurinn er heillandi

Stykkishólmur hefur fóstrað mig og farið vel með mig. Ég er þakklátur fyrir það samfélag sem hér er og var, því samfélagið er fyrst og fremst fólkið, ekki staðurinn.

Ég heiti Ásmundur Sigurjón Guðmundsson, 37 ára sjómaður, fæddur og uppalinn Hólmari og hef búið hér nánast alla mína tíð. Ég er giftur Guðfinnu Rúnarsdóttur og eigum við fjögur börn, þau Viktor Brimi 16 ára, Öddu Sigríði 9 ára, Guðmund Arnar 7 ára og Rúnar Inga sem er 10 mánaða.

Þegar ég var ungur að alast upp í Stykkishólmi má segja að lífið í bænum hafi verið niðri á höfn, en við félagarnir eyddum ófáum tímunum þar í leik og starfi. Vorum við svo heppnir að kynnast lífinu í hafnarskúrnum og í minningunni standa þeir Bjarni Svein, Bogi og Konni upp úr. Samfélag okkar í Hólminum hefur breyst töluvert síðan þá og skipar sjávarútvegur t.a.m. ekki jafnstóran sess í atvinnulífi okkar Hólmara nú eins og áður, þó að hann skipti enn að sjálfsögðu miklu máli. Því er mjög mikilvægt fyrir okkur að standa vörð um þá útgerð sem enn er í Stykkishólmi.

Til þess að fá fólk til að setjast að og taka þátt í samfélagi þarf fyrst og fremst að vera til staðar húsnæði, atvinnutækifæri og umgjörð fyrir góð lífsgæði. Við getum öll verið sammála um að húsnæði og atvinnutækifæri eru órjúfanlegur þáttur í þessu sambandi. En hvað eru lífsgæði? Skilgreining á lífsgæðum getur verið ólík milli manna og er mikilvægt að hver og einn skilgreini það fyrir sig.

Hið frábæra bryggjulíf hefði aldrei dugað eitt til að draga Guðfinnu í Hólminn, en þegar kom að því að stofna fjölskyldu fluttumst við heim og var hún fljót að sjá hversu gott er hér að vera.
Í Stykkishólmi er góð þjónusta við börn og unglinga. Hér er starfrækt öflugt íþróttastarf, góður tónlistarskóli, félagsmiðstöð, skátastarf, leikfélag og ekki má gleyma St. Fransiskus systrunum. Þá hefur Framhaldsskólinn í Grundarfirði verið mikil lyftistöng fyrir samfélagið, því megnið af þessum aldurshópi hvarf úr samfélaginu hér áður.

Það sem að mínu mati hefur farið aftur þegar horft er til baka er þjónustan við unglingana okkar, en þó að starfsfólkið sé og hafi verið öflugt þá hafa húsnæðismál félagsmiðstöðvarinnar ekki verið okkur til sóma hin síðari ár og sett starfseminni ákveðnar hömlur. Í þessu má gera betur og finnst mér mikilvægt að koma upp viðeigandi aðstöðu fyrir unglingana okkar.

Við í H-listanum viljum leita allra viðeigandi lausna á starfsemi félagsmiðstöðvarinnar þannig að þegar til framtíðar er litið verði hér öflugt félagslíf ungs fólks, ungs fólks sem vill búa hér áfram og/eða koma heim aftur til þess að þeirra börn fái jafnframt að njóta þeirra lífsgæða sem hér er að finna.