Hugleiðing um list og ísbíla..

752.2Ég man eftir því að hafa fundist ég heppnasta barn í heimi þegar ísbíll var allt í einu mættur á Hellissand. Ég var alveg ,,Ísbíll!!! Vá!! En ég heppinn að ÍSBÍLL nenni að koma hingað út í sveit, með nýjann og framandi ís til að selja okkur, sveitaómögunum”
Ég spurði mömmu hvort ég mætti fá pening til að kaupa ís og hún leyfði mér það (jafnvel þó að ísbíllinn væri í raun í beinni samkeppni við hana) … Því hún skildi að koma þessa ísbíls var eitthvað sem var bæði spennandi og framandi fyrir mig… og öðruvísi… og nýtt…
Í starfi mínu, sem skipuleggjandi og framleiðandi listviðburða hér í bæ, legg ég áherslu á að segja já við sem flesta sem hingað við vilja koma… Í raun hef ég nánast sagt já við alla sem vilja leika, dansa, syngja eða bara gera eitthvað í Frystiklefanum og þannig um leið fyrir okkar samfélag. Og það er geggjað þegar gengur vel… Það er geggjað að geta sagt frá því að það sé uppselt á margar sýningar í röð og það er frábært að vel sé mætt á stærstu viðburðina…
Og það er vel mætt á það sem er vinsælt…
Það er vel mætt þegar kókbíllinn með jólasveininum á mætir í bæinn. Því það þekkja hann allir…
Á þessu ári hafa nokkrir listamenn á heimsmælikvarða komið í Rif. Listamenn sem eru í algjörum sérklassa á sínu sviði.. Má þar nefna gítarleikarann Tim McMillan og sirkuslistamanninn Kyle Driggs sem kom hingað ásamt tveimur öðrum sirkuslistamönnum og voru með sýningu síðastliðið fimmtudagskvöld.
Það var dapurlegt að sjá engin börn úr tónlistarskólanum á tónleikunum með Tim. Þarna var tónlistarmaður á ferð sem hefði svo auðveldlega getað veitt innblástur og jafnvel hvatt einhvern til að æfa sig meira og/eða prófa að spila öðruvísi…
Einnig fannst mér sorglegt að sjá aðeins eitt barn á grunnskólaaldri á sirkussýningunni á fimmtudaginn. Þarna voru listamenn sem eru algjörlega á hæsta plani á sínu sviði og þeir velja að eyða sumarfríinu sínu í það að ferðast í Rif til að sýna fyrir okkur. Einn þeirra, Kyle Driggs, er meðlimur í Circue Du Soleil, sem er frægasti sirkus jarðarinnar, þar sem hann tekur þátt í sýningum
þeirra í New York átta sinnum í viku allt árið um kring… þess á milli kemur hann í Rif til að sýna fólkinu á Snæfellsnesi listir sínar. Það er hrikalegt að hugsa til þess hve margir misstu af þessu tækifæri til að sjá sirkuslistir á svo háu plani að eina leiðin til að sjá þetta aftur sé að ferðast til New York og sjá þetta fyrir fleiri tugi þúsunda á Broadway…
Þessir listviðburðir eru ísbílar…
Útlenskir og framandi ísbílar sem geta veitt innblástur, hvatt, vakið undrun, vakið gleði, breytt lífum og skapað varanlegar minningar um það þegar: ,,Vá! ég man þegar þetta kom í bæinn minn!… Þessi geggjaði útlenski ísbíll kom í bæinn minn… og ég fékk svo geggjaðann ís sem ég vissi ekki einu sinni að væri til á Íslandi.”
Ég vonast til þess næstu ísbílar sem ég býð hingað fái meiri athygli og lengri röð en þessir sem ég nefni hér. Það væri mjög leiðinlegt að þurfa að byrja að segja nei við ísbíla…

Kári Viðarsson