Hugleiðingar

Hugleiðingar Björgvins Þorsteinssonar um m.a. málfar, bókasafnið og Íslendingasögurnar

,,Styckesholm”

Málfar og framburður breytist, ný orð koma, gömul fara. Sagt er t.d. um Hólmara að þeir hafi notað helst til mikið dönsku, og þá sérstaklega á sunnudögum. Dönsk áhrif voru meira að segja svo mikil á svæðinu að bæjarnafnið breyttist og upphafleg merking þess gleymdist flestum. Fornt nafn hólmans var ekki stykki heldur stiki (festarhólmi) [Ferðafélag Íslands, Árbók 1986, bls. 142]. Fyrir áhrif danskra varð þannig til nafnið ,,Styckesholm” sem síðar varð svo að Stykkishólmur.

 ,,Á helginni”

Annað dæmi um málfar er að segja ”á helginni”, sem var almennt að segja á Vesturlandi og á Vestfjörðum. Því miður virðist mér þetta verið að deyja út. Mín kenning er að í fyrsta lagi haldi fólk að það sé ekki rétt að segja ”á helginni” heldur skuli segja ”um helgina”. Fyrir mér þýðir ”um helgina” í kringum helgina, þ.e. dagarnir sitt hvorum megin við helgina. Ef við segjum ”á helginni” eigum við við laugardag og sunnudag, ekki föstudag eða mánudag. Í gamla daga var t.d. sagt að það væri ólukka að stunda mikla veiði ”á helgidögum”, menn sögðu ekki ”um helgidaga”.  Ég spurði prófessor í íslensku við Háskóla Íslands eitt sinn um þetta og hann var mér sammála – sagði að ”á helginni” væri réttara, en ”um helgina” væri ekki rangt.

     Ég legg til að við höldum okkar sérkennum og segjum ”á helginni”. Við höfum kennt öðrum íbúum þessa lands að eta skötu á Þorláksmessu – þeir læra ef til vill einhvern tímann að segja ”á helginni”… og ”í Stykkishólmi” í stað ”á Stykkishólmi”.

,,Vesældarbælið” Snæfellsnes

Því hefur oft verið haldið fram að á árum áður hafi á Snæfellsnesi búið hið versta fólk – þar verið ómenning og glæpalýður. Sem dæmi má taka eftirfarandi lýsingu í bókinni Gróandi þjóðlíf (1968) eftir Þorstein Thorarensen: “Snæfellsnes var í kringum síðustu aldamót mesta vesældarbæli Íslands, sem olli sífelldum áhyggjum meðal hugsandi manna. Voru hvað eftir annað gerðir út sérstakir leiðangrar til að rannsaka ómenningarástandið þar.” [bls.15]  Ennfremur:“ Gamlir og greindir menn undir Jökli hafa sagt mér, að það hittist varla nokkur maður, sem að langfeðratali er ættaður úr þessum sjóplássum og þar upp alinn, sem nokkur dugur er í. Þeir sem eitthvað braska og framkvæma eru allir aðfluttir.” [bls.17].

Íslendingasögurnar

Á þjóðveldisöld voru forfeður okkar hinsvegar þekktir fyrir miklar skriftir og fræðimennsku. Reykholt, Helgafell, Flatey, og Skarð eru staðir á Vesturlandi þar sem sagnahefð, bókagerðarlist og bókmenning stóð í blóma öldum saman. Íslendingasögurnar eru flestar taldar skrifaðar af Vestlendingum – Ara fróða, Snorra Sturlusyni og fleirum. Kenningin er sú að fleiri þrælar og afkomendur þeirra hafi sest að á Vesturlandi en annarsstaðar á landinu. Þrælarnir komu frá Bretlandseyjum þar sem sagnahefð var sterk. Hinsvegar var sagnahefð í Skandinavíu á tímum víkinga óþekkt. Ólíklegt er að víkingarnir hafi öðlast þessar gáfur upp úr þurru og byrjað að skrifa Íslendingasögurnar án vestmanna.

Bókasafnið

Þrátt fyrir lýsingarnar hér að ofan af “Vesældarbælinu” Snæfellsnesi höfðu um aldamótin 1800/1900 í Stikesholmi verið stundaðar samfelldar veðurmælingar í rúma hálfa öld. Það vísindastarf er óumdeilt og viðurkennt á heimsvísu. Með stofnun Amtbókasafnsins árið 1847 voru Hólmarar einnig á undan sinni samtíð, því mér telst til að safnið sé elsta bókasafn landsins ef frá er talið Landsbókasafnið sem var stofnað 1818.  Til samanburðar má nefna að höfuðborgarbúar fengu ekki sitt eigið bókasafn fyrr en Borgarbókasafnið hóf starfsemi 1923.

     Bókasöfn eiga ekki aðeins að innihalda dauðar bækur – þær eru einskis virði ef  engin les þær. Til þess að fá fólk til að sækja söfnin er staðsetning þeirra, stærð og innviðir lykilatriði – þau þurfa að vera miðsvæðis, rúmgóð og nútímaleg. Lestrarkunnátta er grundvallaratriði góðs námsárangurs. Laða þarf börn að bókasöfnum frá unga aldri. Sum bókasöfn hér á landi hafa sérstakar barnadeildir, þar sem t.d. er hægt að panta sögustundir með starfsfólki safnsins.

      Minningar úr bókasafninu á ég margar og góðar. Þegar komið var á safnið þurfti að skrifa nafn sitt í gestabók, þegar lánaðar voru bækur voru lánsnúmer skrifuð í bókina og á lánskort ásamt dagsetningum. Ég kom við hjá Birnu Pétursdóttur bókaverði á bókasafninu s.l. sumar – þarna var sami góði andinn enn til staðar, sama lyktin, sömu hljóðin…Mér er minnisstætt þegar ég fékk að aðstoða Víking heitinn Jóhansson bókavörð. Þá leyfðist mér stundum að fara í hálfmánaherbergið sem var annars yfirleitt læst. Þessi hluti hússins er upplagður til að setjast niður og virða fyrir sér gamla bæinn, höfnina, Breiðafjörðinn og fjallahringinn. Þarna gæti ég hugsað mér að sitja lengi, sötra kaffi og glugga í gott lesefni.

     Núverandi húsnæði safnsins, og staðsetning þess, er í mínum huga órjúfanlegur hluti af Stykkishólmi – húsið er orðið að eitt af kennileitum bæjarins.

Nú hefur verið upplýst að meiningin sé að finna bókasafninu annað og hentugra húsnæði.  Nota skal húsnæðið á Þinghúshöfða undir safn sem kennir sig við vatn.

    Vatn spilar höfuðhlutverk í lífi hvers manns en fyrir Íslendinga kannske enn meir því við erum sú þjóð sem á hvað mest af vatni miðað við fólksfjölda. Vatnið nýtist okkur ekki aðeins til drykkjar, matargerðar og heilsubaða heldur einnig til að framleiða raforku og til að hita upp hús og hýbýli.

    Vonandi mun þetta verkefni ganga vel og verða til þess að fólk komi og njóti bæði safnsins og staðarins. Ég leyfi mér þó hér að benda á að ekki er hægt að taka á móti mörgum gestum í einu ef þeir koma akandi þar eð höfðinn rúmar varla fleiri en 2-3 bíla. Til að fjölga stæðum væri hægt að festa kaup á næsta húsi, rífa það og byggja bílastæði. Ef ekki, væri hægt að hafa aðeins aðgengi fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur ásamt bílastæðum fyrir annarsvegar fatlaða og hinsvegar fyrir starfsmenn safnsins. Safngestir gætu lagt bílum sínum einhversstaðar í gamla miðbænum þar sem yrðu kort sem sýndu leiðina upp að safninu á Þinghúshöfðanum.

                                             Með þökk fyrir birtinguna,

                                            Björgvin Þorsteinsson