Hugmyndir varðandi húsnæðismál skóla og tómstundarstarfs Stykkishólmsbæjar

1917654_1133560072312_1208006_nEftir að hafa setið með góðu fólki og farið yfir skólastefnu bæjarins þá var eitt mál sem er mest aðkallandi, og það eru húsnæðisvandamál bæjarins. Leikskólinn fullsetinn og ekki hægt að taka fleiri nemendur inn eins og er, margt komið á tíma í grunnskólanum eins og borð, stólar og heimilsfræðistofan og það sem er inn í henni er úr sér gengið, og vantar stærri kennslustofur, tónlistarskólinn óhentugur vegna fjarlægðar frá grunnskóla og komið að miklu viðhaldi þar. Félagsmiðstöð unglinganna alveg til háborinnar skammar, fúkkalykt og músagangur. Ekki krökkunum okkar bjóðandi og fullorðið fólk myndi aldrei láta bjóða sér svona aðstöðu.

Ég hef mikið verið að spá í forgangsröðun bæjarins og finnst mér hún ekki alveg vera í takt við það sem brýnast er að gera og vantar. Mér finnst engin þörf á stærðarinnar Amtbókasafni þegar annað þarf að laga. Hef velt þessu mikið fyrir mér og þar sem ég hef ákveðið að búa hér með konu minni og þrem börnum þá vil ég fá það sem held ég flestir vilja sem er mannsæmandi aðstaða í skólahúsnæðum.
Nú hefur mikið verið gert til þess að fá fólk til að flytja í fallega bæinn okkar og að hér sé líklega að fara rísa þörungarverksmiðja með tilheyrandi atvinnu. Mér finnst skjóta skökku við að á sama tíma og það er verið að óska eftir fólki í bæinn þá er forgagngsatriði að byggja Amtbókasafn. Því miður þá bara skil ég ekki svona en kannski er minn heili ekki fullþroskaður til að skilja það en það er allt annað mál.

Ég veit það bara ef fólk hefur hug á því að flytja hingað þá byrjar það yfirleitt á að kynna sér þjónustu bæjarins og þar á meðal pláss á leikskóla, hvernig grunnskólinn er og aðstæður þar, félagsmiðstöð, heilbrigðisþjónusta og ýmislegt annað. Fólk er ekki að flytja hingað ef þessu er öllu ábótavant en jú bíðið aðeins við, það er geggjað 500 fermetra Amtbókasafn, jess jess við skulum flytja í Hólminn. Finnst ykkur það líklegt? Mitt svar er NEI.

En að mínum hugmyndum.
Tónlistarskólinn
Ef það er stefnan að fara með tónlistarnámið nær grunn-skólanum þá væri hægt að setja að minnsta kosti fjögur færanleg hús (kálfa) austan megin við grunnskólann með tengibyggingu við grunnskólann. Grunn- og tónlistarkennarar geta samnýtt kennarastofur.
Grunnskólinn
Það væri hægt að byggja vestan megin við grunnskólann svipaða byggingu og Helgafellsálman upp að suðurhorni skólans. Þetta væri á tveimur hæðum eins og álman sem fyrir er. Þarna gætu komið 6 kennslustofur, 3 niðri og 3 uppi. Stækka heimilsfræðistofuna niðri um eitt bil og þá eru 5 eftir. Stækka matsal á efri hæð um eitt bil og þá eru 4 eftir. Taka stofurnar sem eru inn af bókasafninu og færa þær í þessa byggingu og þá eru 2 eftir sem væri hægt að nýta í eitthvað sem vantar. Nú þegar þessar 2 stofur inn af bókasafninu eru farnar þá væri hægt að sameina Amtbóka og skólabókasafnið þarna þar sem skólabókasafnið er nú og nota þessar 2 kennslustofur undir þá starfsemi. Það er inngangur að sunnanverðu inn í bókasafnið og hægt að gera bílaplan og smá veg frá hótelplaninu.

Æskulýðstarfið
Það er alltaf verið að tala um að selja tónlistarskólabygginguna. Það er hugmynd sem er afleit að mínu mati því það er hægt að nota þá byggingu í heilmargt annað en að selja einhverjum hótelrekstraraðila. T.d væri hægt að koma upp flottri aðstöðu fyrir unglingana, gamla fólkið, og að mér skilst þá er húsnæði Ásbyrgis orðið alltof lítið og það flotta starf gæti líka farið þarna inn. Svo væri hægt að flytja Amtbókasafnið í gamla íþróttasalinn.

Leikskólinn
Þar þarf að stækka því að ásókn í leikskólann er mikil.

Hér hef ég stiklað á stóru varðandi þær hugmyndir sem ég hef um þær breytingar sem hægt er að gera til að gera skólaumhverfið okkar meira aðlaðandi og hvaða framkvæmdir ég tel vera nauðsyn-legt að fara út í ef við ætlum að bjóða íbúum Stykkishólmsbæjar og nýjum íbúum uppá almennilega aðstöðu í skólamálum. Ég sem íbúi hér og borga mitt útsvar þá vil ég að peningar séu settir í þetta til að bæta aðstöðu allra varðandi þennan málaflokk. Það eru eflaust einhverjir ósammála mér þá er Amtbókasafn ekki eitthvað sem er nauðsynlegt þegar mörg nauðsynlegri verkefni bíða. Bíða með þessa Amtbókasafns-byggingu þar til að að við sjáum fram á bjartari daga. T.d. þegar þörungarverksmiðjan fer að gera góða hluti og það fólk sem kemur til starfa þar fer að borga sitt útsvar hér þegar það flytur því það er mín trú að fólk er ekki að fara flytja búferlum til að lepja kaffi latte í Amtbókasafninu sem fyrirhugað er að byggja.

Kveðja
Sigfús Magnússon