Miðvikudagur , 20. febrúar 2019

Hún amma mín er flutt

12980685_10153356908737330_1618640299_o
Það kannast eflaust flestir Hólmarar við hana ömmu mína, Unni Láru Jónasdóttur. Hún Unnur amma eins og hún er oftast kölluð er dugnaðarforkur og hefur verið mín fyrirmynd frá unga aldri, alin upp í eyjunum eins og hún segir og er eyjakerling með meiru.

„Svona er lífið“ sagði hún þegar við fjölskyldan fluttum hana uppá Dvalarheimili í síðasta mánuði, maður eldist og hættir að geta séð um sig að fullu. Það var rétt hjá henni og manni finnst það stundum hálf dapurt að hafa ekki ömmu sína spræka með sér útí eyjum á sumrin eða stundandi sínar tómstundir.

Það var þó ekki það sem mér þótti mest dapurlegt, að hún skuli vera orðin léleg til fótanna eða að flytjast búferlum upp á Dvaló en þar vinnur gott fólk og íbúarnir þar eru skemmtilegt og duglegt fólk. Heldur var það „húsnæðið“ eða öllu og heldur sú litla aðstaða sem henni var úthlutað. Aðstaða upp á örfáa fermetra, jú með útsýni yfir Elliðaey sagði ég til að hressa ömmu mína við og teygði mig yfir rúmið hennar til að sjá glitta í þann stað þar sem hún ólst upp.

Í herbergi hennar, sem og mörgum öðrum þarna, er engin klósettaðstaða heldur er sameiginleg aðstaða fram á ganginum. Herbergið er þröngt með einum vaski og hillu og eflaust erfitt fyrir starfsfólk að aðhafast í þessu rými.

Við bæjarbúar kvörtum oft yfir hlutunum og sjálfur hef ég gert það, nú seinast yfir því að koma yngsta barninu mínu ekki inná leikskólann hér í bæ, einnig hefur hópur fólks barist fyrir að leikvellir verði endurnýjaðir, sumir vilja nýtt bókasafn og aðrir ekki. En eftir að hafa flutt Unni ömmu á hennar seinasta heimili eru þau vandamál sem ég sé í bænum mínum smáatriði miðað við þessa aðstöðu sem henni er boðin.

Þetta er ekki beint að þeim sem ráða yfir bæjarmálum í dag eða fyrri ára, heldur til okkar allra í bænum því ég efast um að við myndum láta bjóða okkur upp á þetta þegar við verðum eldri eða hættum að geta búið í okkar húsnæði. Fólkið sem byggði upp þennan bæ á betra skilið en þetta.

Árni Ásgeirsson