Hvað er að gerast í miðbænum okkar?

unspecifiedÍ auglýsingu frá Stykkishólmsbæ frá því í desember sl. er auglýst breyting á deiliskipulagi í miðbænum. Heimilað er niðurrif á Hafnargötu 7, húsnæði Amtsbókasafnsins. Í stað þess er gert ráð fyrir húsi á þremur hæðum (kjallari + 2 hæðir), húsið verður hátt í 500m2 að stærð. Lóðin verður stækkuð bæði í átt að torginu og í átt að Æðarsetrinu. Við lóðarstækkunina falla út nær öll almenningsbílastæði við húsið en sex einkabílastæði verða inni á stækkaðri lóð. Einnig er heimilað að girðing verði reist umhverfis húsið á lóðamörkum. Lóðinni er skipt í tvær lóðir og í stað hússins sem í núgildandi deiliskipulagi er tengibygging við Amtsbókasafnið er gert ráð fyrir einu húsi sem lóðarhafinn hefur í hendi sér hvort verður byggt eða ekki líklega næstu 50 árin. Skv. deiliskipulagbreytingunni kemur fram að “húsunum er ætlað að hýsa íbúðir, þjónustu eða létta atvinnustarfsemi.” Lóðarhafinn hefur það líka í hendi sér hvort og þá hvaða starfsemi verði í húsunum þrátt fyrir að húsnæði Amtsbókasafnsins hafi verið auglýst til sölu til uppbygginar á frekari þjónustu. En nú virðist uppbygging þjónustu á svæðinu ekki skipta neinu máli.

Það eru eingöngu fjórir bæjarfulltrúar, meirihluti bæjarstjórnar, fulltrúar H-listans sem samþykkja þessa deiliskipulagsbreytingu. Þau fjögur höfnuðu líka tillögu um íbúakosningu um málið. Þetta er líka fólkið sem hunsaði vilja fjölda Hólmara sem óskuðu eftir því að sölu hússins yrði frestað og höfnuðu viðræðum við fulltrúa Bókaverzlunar Breiðafjarðar.

Í auglýsingunni um skipulagsbreytinguna kemur fram “Skemman sem stendur á lóðinni var byggð árið 1970 sem atvinnuhúsnæði og hefur lengi þótt passa illa inn í bæjarmynd Stykkishólms.” En það er ekki tekið fram hverjir það eru sem lengi hefur þótt þetta. Mögulega er hér verið að vitna í bréfið frá Marz Seafood um áform þeirra um breytingar á lóðinni þar sem fram kemur “Okkar mat er að núverandi bygging hæfi ekki götumynd gamla miðbæjarkjarnans og stangist á við stefnu undanfarinna ára um að varðveita byggingararfinn.

Þeir sem eldri eru muna eftir húsi sem stóð á sömu lóð og Amtsbókasafnið stendur nú og kallað var Langi skúr. Það hús var á einni hæð.

Að byggja hús á þessum stað á þremur hæðum í allt annarri mynd en verið hefur í gegnum tíðina gjörbreytir umhverfi miðbæjarins frá því sem það hefur verið og getur varla talist uppbygging í nær óbreyttri mynd eða varðveisla á byggingararfinum.

Í gildandi skipulagi er gert ráð fyrir að húsið standi og hýsi safnastarfsemi og torgið á milli bókasafnsins og Norska hússins er í gildandi skipulagi safnatorg. En í tillögu að breyttu skipulagi er talað um almenningstorg. Svolítið sérstakt að kalla torgið almenningstorg þegar tvær hliðar þess munu snúa að afgirtum húsum með prívat merktum bílastæðum sem enginn hefur neitt að sækja í fyrir utan fjölskylduna sem eiga þau, reynist það rétt að í húsinu eigi að vera söluskrifstofa fyrir fiskafurðir og íbúð.

Rifjum aðeins upp aðdragandann að þessari deiliskipulagsbreytingu.

Hús Amtsbókasafnsins var auglýst til sölu ásamt öðrum eignum bæjarins til að fjármagna byggingu tónlistarskóla. Sérstaklega var tekið fram í auglýsingunni að auglýst væri “eftir áhugasömum aðilum til viðræðu um hugsanleg kaup á tilteknum fasteignum bæjarins til uppbyggingar á frekari þjónustu, sem gæti fallið vel að þessum gömlu húsum og því skipulagi sem er í gildi”.

Hefði húsið verið auglýst þannig að ekki þyrfti að fara eftir gildandi deiliskipulagi og að ekki væri gert ráð fyrir frekari uppbyggingu á þjónustu, eru allt aðrar fosendur fyrir hendi og mögulega hefðu fleiri gert tilboð í húsið og mögulega hærra verð fengist, nema þá að öðrum hafi ekki verið ætlað það.

Tilboðsfresturinn var framlegndur tvisvar sinnum. Nokkur tilboð bárust í húsnæði Amtsbókasafnsins. Eftir að þau höfðu verið opnuð og birt og samþykkt af bæjarráði að tala við hæstbjóðendur óskaði núverandi eigandi eftir því að fá að gera tilboð í húsið. Gripið var til þessa ráðs að boða til bæjarráðsfundar og hafna öllum tilboðunum. Viðræðum við hæstbjóðendur var ekki lokið á þessum tíma en þeim var hinsvegar hætt. Heiðrún Höskuldsdóttir fulltrúi Bókaverzlunar Breiðafjarðar sem var ein þeirra sem gerði tilboð í húsið innan tilskilins tilboðsfrests lýsti því í fréttum RÚV að hafa þurft að hafa fyrir því að fá að gera nýtt tilboð í húsið eftir að nýr aðili kom að borðinu og söluferlinu þá breytt. Fulltrúar Bókaverzlunar Breiðafjarðar óskuðu á þessum tíma eftir viðræðum við bæjarstjórn um mögulegt samstarf um rekstur bókasafns, bókaverslunar og bókakaffis auk möguleika á rekstri upplýsingamiðstöðvar í húsinu, en þau fyrirhuguðu að byggja tengibygginguna við húsið sem er á gildandi skipulagi. Fulltrúar H-listans höfnuðu því að ræða við þau.

Niðurstaðan var sú að Marz Seafood bauð 48 millj. kr. í húsið en Bókaverzlun Breiðafjarðar bauð 50 millj. kr. í húsið. Lægra tilboðinu var tekið. Húsaleiga var reiknuð inn í tilboðin en kostnaður Stykkishólmsbæjar við deiliskipulagsbreytinga vegna áforma Marz Seafood var hins vegar ekki reiknaður inn í tilboðin. Ekki má gleyma tilraun H-lista til að flétta Trésmiðju Stykkishólms inn í þessi viðskipti. Stykkishólmsbær greiðir nú eigandanum um 5 millj. kr. húsaleigu á ári fyrir starfsemi Amtsbókasafnsins.

Nú sitjum við uppi með það að ekkert verður af uppbyggingu tónlistarskóla á næstunni, hvort sem er á núverandi eða nýjum stað, fyrir börnin okkar og unglingana okkar, engin áform hafa verið birt um hvenær aðstaða fyrir aldraða verði bætt, stækkun leikskóla er ekki á dagskrá, viðhald íþróttamiðstöðvarinnar situr á hakanum og fleira mæti telja. Búið er að selja fleiri eignir og skuldsetja bæinn okkar til lengri tíma og nú er áformað að setja, Vatnasafnið, fráveituna og miðrými dvalarheimilisins á sölu til að fjármagna framkvæmdir og rekstur bæjarins á þessu ári. Síðast þegar skoðað var með sölu fráveitu til OR var gert ráð fyrir að fráveitugjald myndi a.m.k. fjórfaldast á hverja fasteign.

Fulltrúar H-listans höfðu val. Þau völdu að hunsa vilja Hólmara um að fresta sölu á húsnæði Amtsbókasafnins, þau völdu að neita viðræðum við fulltrúa bókaverslunarinnar, þau völdu að hafna tillögu um íbúakosningu um deiliskipulagsbreytinguna, þau völdu að breyta deiliskipulagi miðbæjarins, fækka almenningsbílastæðum en fjölga þar einkabílastæðum, stækka lóð einnar fjölskyldu og draga úr þjónustu á svæðinu. Þetta val fulltrúa H-listans er á kostnað mögulegrar uppbyggingar ferðaþjónstu í miðbænum. Þau völdu að selja eignir og skuldsetja bæinn til framtíðar. Þetta val er á kostnað barnanna okkar, unglinganna okkar og gamla fólksins sem allra síst á það skilið. Til hversu langs tíma vitum við ekki. Engar áætlanir hafa verið birtar um hvenær mögulegt verður að fjármagna uppbyggingu tónlistarskóla eða fjármagna hlut bæjarins í breytingum á sjúkrahúsinu til að bæta aðstöðu aldraðra. Þetta er val fullrúa H-listans þau eru fjögur við hin erum um 1.160. Við höfum líka val. Hingað til hafa bæjarfulltrúarnir haft þetta val en samkvæmt lögum er þeim skylt að auglýsa breytingar á skipulagi og gefa kost á athugasemdum. Við Hólmarar höfum val um að þegja og gera ekki neitt og samþykkja þar með val fulltrúa H-listans að skipulagsbreytingunni. Auðvitað gera þeir það sem styðja ákvörðun fulltrúa H-listans. En við hin sem finnst þetta val dapurlegt höfum líka val. Við getum valið að gera athugasemdir við deiliskipulagsbreytinguna fyrir tilskilinn frest sem er 26. janúar n.k.

Að lokum langar mig að vitna í bók sem varð mér mikil hvatning til skrifa þessa grein og vekja athygli á þeim skipulagsbreytingum sem við eigum í vændum. Bókin heitir Hugskot Skamm-, fram- og víðsýni eftir Friðbjörgu Ingimarsdóttur og Gunnar Hersvein. “Öflug borgaravitund er forsenda fyrir því að verða fullgildur einstaklingur í samfélagi. Það er ekki nóg að vera góður og gegn þegn. Góður borgari tekur þátt í samfélaginu, hann vill efla það og bæta, hann virðir aðra og traðkar ekki á réttindum, hann rækir skyldur sínar, stendur vörð um réttindi sín, mótmælir óréttlæti, gagnrýnir og tekur þátt í umræðunni.” (bls. 174).

Ég vona að þetta verði fleirum en mér hvatning til að vera gagnrýninn borgari. “Ef hugrekki þarf til að tjá skoðun sína, þá er eitthvað alvarlegt á seyði í skúmaskotum samfélagsins. Það á ekki að þurfa hugrekki til að taka þátt í lýðræði eða til að tjá skoðun sína. Ef svo er, er eitthvað bogið við það.” (bls. 178).

Erla Friðriksdóttir