Hvað er þetta AD/HD eiginlega???

Vigdís Gunnarsdóttir félagsráðgjafi fjallar um fyrirbærið AD/HD

Eins og glöggir lesendur blaðsins hafa séð þá hafa að undanförnu verið auglýstir fundir og stuðningshópar um eitthvað sem er kallað AD/HD. En hvað er þetta AD/HD? AD/HD er erlend skammstöfun yfir það sem á íslensku er kallað athyglisbrestur með eða án ofvirkni. Um er að ræða hegðunartruflun sem kemur snemma fram hjá börnum eða fyrir 7 ára aldur og getur haft víðtæk áhrif á daglegt líf, nám og félagslega aðlögun. Rannsóknir sýna að nálægt 5 % barna glíma við ofvirkni, eða að meðaltali 1-2 í hverjum bekk í grunnskóla. Orsakir AD/HD eru líffræðilegar og því er ekki um að kenna umhverfisþáttum eins og slöku uppeldi eða óheppilegum kennsluaðferðum. Hver kannast ekki við frasa eins og “…hann er bara svo illa upp alinn”? Viðhorf sem þessi geta haft mjög slæm áhrif á líðan foreldra og barna og komið í veg fyrir að barnið fái þá aðstoð sem það þarfnast. Uppeldi barna og unglinga með AD/HD er afar krefjandi og þurfa foreldrar þeirra að tileinka sér og þjálfa sérstakar uppeldisaðferðir. Helstu einkenni AD/HD eru: athyglisbrestur, ofvirkni, hvatvísi, einbeitingarleysi, hreyfióróleiki, eirðarleysi, vanvirkni, áráttuhegðun, samskiptaerfiðleikar, námserfiðleikar og hegðunarerfiðleikar. Af þessari upptalningu má sjá að börn með AD/HD geta verið með ólík einkenni sem hægt er að draga úr og halda í skefjum með t.a.m. þjálfun í heppilegum uppeldisaðferðum, lyfjameðferð, viðeigandi kennsluaðferðum og fræðslu um ofvirkni. Góð sjálfsmynd er forsenda velgengni og því er lykilatriðið að stuðla að því að ofvirkir bíði ekki stöðuga ósigra og hafa í huga að börn og unglingar læra ekki af skömmum og neikvæðu viðmóti. Mikilvægt er að leita eftir sterkum hliðum en ekki einblína á veikleika. Ofvirk börn og unglingar þurfa skýran ramma í uppeldinu en fyrst og fremst þarf þó jákvætt viðmót, hrós og viðurkenningu fyrir það sem vel er gert. Þú lesandi góður ert mikilvægur hluti af stærra samfélagi og með skilningi þínum á AD/HD og réttum viðbrögðum getur þú bætt líðan fjölda fjölskyldna í samfélaginu.

(Unnið úr bæklingi AD/HD samtakanna, “hvað er ADHD?”, tekið saman af Vigdísi Gunnarsdóttur félagsráðgjafa).