Miðvikudagur , 20. febrúar 2019

Hvað felst í þarfagreiningu ?

Í skrifum Okkar Stykkishólms hafa hugtökin þarfagreining og langtímaframkvæmdaáætlun margoft borið á góma. Því er vel við hæfi að staldra við þessi hugtök og fjalla nánar um hvað átt er við.

Ljóst er að Stykkishólmsbæjar bíða fjölmörg úrlausnarefni sem flest eru aðkallandi og mörgum íbúum bæjarins mikilvæg. Til að nefna örfá dæmi hefur hér verið kallað eftir bættri aðstöðu tónlistarskólans, úrbótum á þjónustu og aðstöðu aldraðra og betri frístundaaðstöðu fyrir ungmenni. Fráveitukerfi bæjarins þarfnast lagfæringar, ýmsar byggingar þarfnast viðhalds, ganga þarf frá skólalóðinni og þannig má lengi telja.

Eins og gefur að skilja hefur bæjarfélagið ekki fjárhagslegt svigrúm til að ráðast í öll verkefnin strax, og því þarf að forgangsraða. Flestir hafa skoðun á hvað þeim finnst mikilvægast að ráðast í fyrst og hvaða verkefni megi bíða betri tíma. Bæjarstjórnarkosningar snúast að einhverju leyti um að íbúar hafi tækifæri til að velja slíka forgangsröðun, að því gefnu að mismunandi framboð gefi loforð um að setja tilteknar framkvæmdir eða verkefni í forgang, og að munur sé á loforðum framboða. Ein afleiðing slíks kerfis er þó að sú staða gæti komið upp að ákveðin verkefni, sem þykja e.t.v. ekki krassandi í kosningabaráttu, verða undir og komast ekki til framkvæmdar þótt mikilvæg séu.

Heildstæð þarfagreining og gerð framkvæmdaáætlunar tekur m.a. á þessu. Við gerð heildstæðrar þarfagreiningar yrði litið til allra stofnana, verkefna, þjónustu o.s.frv. sem bæjarfélagið ber ábyrgð á. Þarfir um úrbætur á hverju sviði eru teknar saman í heildstætt yfirlit og þeim svo forgangsraðað í samræmi við hvar þörfin er mest þegar litið er til heildarhagsmuna íbúa og þeirrar þjónustu sem bæjarfélagið þarf að veita til að hér geti þrifist hamingjuríkt og heilbrigt samfélag.
Hægt er að fara margar leiðir til að vinna slíka þarfagreiningu, en Okkar Stykkishólmur leggur áherslu á að hún verði unnin í góðu samráði við íbúa. Ein möguleg útfærsla gæti verið eftirfarandi:

1) Í upphafi verði skilgreind og flokkuð þau viðfangsefni sem þurfa að koma til álita við gerð þarfagreiningarinnar. Þetta er lykilatriði til að tryggt verði að þarfagreiningin nái til allra viðfangsefna, en ekki bara þeirra þekktustu.

2) Í samráði við íbúa, starfsmenn Stykkishólmsbæjar og sérfræðinga verði staða hvers viðfangsefnis skilgreind, skoðað hvaða úrbætur séu nauðsynlegar eða æskilegar og þeim forgangsraðað í hverju tilfelli. Hér væri m.a. litið til þeirrar vinnu sem hefur nú þegar farið fram til að skilgreina þessar þarfir og stefnu bæjarfélagsins, en einnig væri öllum íbúum gefinn kostur á að koma ábendingum á framfæri, t.d. á opnum fundum, í rafrænum skoðanakönnunum, í gegnum Betra Ísland eða eftir öðrum leiðum.

3) Allar tillögur um úrbætur og forgangsröðum þeirra verði settar saman í heildstætt yfirlit og gert gróft kostnaðarmat á þeim helstu.

4) Niðurstöðurnar úr liðum 1-3 verða kynntar ítarlega fyrir íbúum og þeim gefinn kostur á að hafa áhrif á endanlega heildarforgangsröðun verkefna, með hliðsjón af fjárhagsstöðu bæjarfélagsins og hvaða tímaramma hún leyfir. Þetta gæti t.d. farið fram með íbúafundi, rafrænum kosningum og/eða öðrum leiðum sem tryggja að vilji íbúa komi skýrt í ljós.

Þegar slík forgangsröðuð þarfagreining liggur fyrir er hægt að búa til langtímaframkvæmdaáætlun, þar sem allar úrbætur verða tímasettar. Þetta er lykilatriði til að tryggja að ekkert nauðsynlegt verkefni verið út undan og að reynt verði að taka tillit til þarfa allra. Segjum t.d. að úr þessari vinnu kæmi að bæjarfélagið hefði ekki tök á að byggja nýjan tónlistarskóla fyrr en eftir 10 ár, þar sem fjárhagur leyfði ekki slíka framkvæmd eða að önnur mikilvæg verkefni yrðu látin ganga fyrir. Þá er ljóst að bæta þyrfti sem fyrst núverandi aðstöðu með það í huga, í stað þess að hún yrði ávallt látin mæta afgangi eins og gæti mögulega gerst ef óljóst væri hvenær eða hvort yrði af slíkri byggingu.

Af framangreindu sést vonandi að gerð heildarþarfagreiningar og langtímaframkvæmdaráætlunar með þessum hætti minnka líkur á geðþóttaákvörðunum og gæluverkefnum og gæti sannarlega reynst öflugt tól til markvissrar stjórnunar bæjarfélags. Við leggjum mikla áherslu á að slík greining verði unnin, með samstarfi allra bæjarfulltrúa, starfsfólks og íbúa, og verði grundvöllur að framtíðarákvörðunum bæjarstjórnar.

Haukur Garðarsson, 1. sæti Okkar Stykkishólms,
Erla Friðriksdóttir, 2. sæti Okkar Stykkishólms,
Theódóra Matthíasdóttir, 3. sæti Okkar Stykkishólms,
Árni Ásgeirsson, 4. sæti Okkar Stykkishólms